Innlent

Hannesi Hlífari nægðu tíu leikir til sigurs

Evgenij Miroshnichenko tapaði aðeins einni af tíu blindskákum. Það var fyrir alþingiskonunni og skákdrottningunni Guðfríði Lilju Grétarsdóttur.
Fréttablaðið/Vilhelm
Evgenij Miroshnichenko tapaði aðeins einni af tíu blindskákum. Það var fyrir alþingiskonunni og skákdrottningunni Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Fréttablaðið/Vilhelm
Stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson þurfti aðeins tíu leiki til að vinna fyrsta andstæðing sinn á Reykjavíkurskákmótinu sem hófst síðdegis í gær. Það var Spánverjinn Jordi Agullo Herms sem tapaði fyrir Hannesi. Herms er aðeins með 2098 skákstig en Hannes hefur 2557 stig.

Margir sterkir skákmenn tefla á Reykjavíkurskákmótinu sem haldið er í 26. sinn. Stigahæstur er enski stórmeistarinn Luke McShane með 2683 stig. Ivan Sokolov frá Bosnínu, sem sigraði á mótinu í fyrra, er einnig mættur til leiks. Sömuleiðis úkraínski stórmeistarinn Evgenij Miroshnichenko. Geta má þess að bróðursonur hins heimsfræga búlgarska knattspyrnumanns Dimitri Berbatov hjá Manchester United er meðal keppenda. Sá heitir Kiprian Berbetov og er aðeins fjórtán ára – eins og yngsti stórmeistari heims, Ilya Nyznhik frá Úkraínu sem líka teflir á mótinu.

Evgenij Miroshnichenko tefldi blindskák við tíu manns í einu fyrir sjálft mótið. Miroshnichenko vann níu andstæðinga en tapaði fyrir Guðfríði Lilju Grétarsdóttur – sem reyndar bauð Úkraínumanninum upp á skiptan hlut í endataflinu. Þá var Guðfríður með yfirhöndina en vildi sinna barni sem hún er með á brjósti. Miroshnichenko þáði ekki jafnteflið. „Ég held ég sé með tapaða stöðu svo ég verð að hafna tilboðinu,“ sagði hann og gafst upp við kátínu áhorfenda.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×