Innlent

Göngin verða tilbúin í lok árs 2014

Göngin undir heiðina milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals verða 7,5 km. réttablaðið/kristján
Göngin undir heiðina milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals verða 7,5 km. réttablaðið/kristján
Hlutafélag um framkvæmd og rekstur Vaðlaheiðarganga var stofnað á Akureyri í gær. Hlaut það nafnið Vaðlaheiðargöng hf. Hluthafar eru Vegagerðin, fyrir hönd ríkissjóðs, með 51 prósent hlutafjár og Greið leið ehf. með 49 prósent. Að Greiðri leið standa sveitarfélög í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, auk tíu fyrirtækja. Í þeim hópi eru meðal annars Brim, Eimskip, SBA-Norðurleið, KEA, Norðurmjólk og Norðlenska.

Í stjórn Vaðlaheiðarganga sitja Kristín H. Sigurbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni, Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings, og Kristján L. Möller alþingismaður.

Í tilkynningu segir að Vaðlaheiðargöng verði 7,5 kílómetra löng með vegskálum beggja vegna. Lengd vegskála verður 280 metrar. Þversnið ganganna verður 9,5 metrar og vegtengingar 4,1 kílómetri. Grafnir verða út um 700 þúsund rúmmetrar efnis. Áætlaður kostnaður við framkvæmdina á verðlagi 2011 er 10,4 milljarðar króna. Göngin munu stytta Hringveginn um 16 kílómetra og er áætluð umferð við opnun þeirra um 1.400 bílar á sólarhring.

Forvalsgögn eru nánast tilbúin og verða send út fljótlega. Áætlað er að bjóða verkið út í vor. Reiknað er með að framkvæmdir geti hafist í haust og að göngin verði opnuð fyrir árslok 2014.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×