Innlent

Segir aðstoðarmann fara með rangfærslur

Örnólfur Thorsson
Örnólfur Thorsson
Hrannar B. Arnarsson
Ritari forseta Íslands sakar aðstoðarmann forsætisráðherra um að viðhafa alvarlegar rangfærslur um samskipti forsetans og forsætisráðherrans í tengslum við lækkun launa forsetans og laun handhafa forsetavalds.

Í viðtali við Fréttablaðið í gær sagði Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, að Jóhanna væri nýbúin að frétta af því að laun forseta hefðu lækkað í ársbyrjun 2009.

„[Jóhanna] er nýbúin að frétta af þessum launalækkunum forsetans. Þú vissir hvernig þetta var áður, það fór frumvarp inn í þingið og þar töldu menn engar heimildir í stjórnarskrá til að lækka launin,“ sagði Hrannar í samtali við Fréttablaðið á þriðjudagskvöld.

Síðar sagði hann: „Forsetinn er nýbúinn að upplýsa forsætisráðherra um að hann hafi óskað eftir og fengið lækkun en að hún hafi ekki gengið yfir handhafana. Jóhanna hefur í framhaldinu ákveðið að óska eftir sambærilegri lækkun á sínum hlut þannig að hann verði sambærilegur og hjá forsetanum.“

Í harðorðu bréfi sem Örnólfur Thorsson forsetaritari sendi Hrannari í gær hafnar Örnólfur þessum skýringum Hrannars. Örnólfur bendir á að forsetinn hafi sjálfur óskað eftir og fengið launalækkun í ársbyrjun 2009. Um það hafi verið fjallað mikið í fjölmiðlum og málið hafi legið ljóst fyrir í tvö ár.

Örnólfur segir einnig rangt að forsetinn hafi nýlega upplýst forsætisráðherra um að hann hafi óskað eftir og fengið lækkun, og að hún hafi ekki náð til handhafa forsetavalds.

„Forseti er ekki „nýbúinn að upplýsa forsætisráðherra“ um þetta mál enda slíkt óþarfi þar eð málið hefur legið fyrir opinberlega í rúm tvö ár. Það er mikilvægt að aðstoðarmaður forsætisráðherra fari rétt með staðreyndir varðandi samskipti forseta og forsætisráðherra,“ skrifar Örnólfur.

„Skrifstofa forseta vill vekja athygli á að alveg eins og forseta Íslands var kleift að fá laun sín lækkuð í árslok 2008 þá gátu handhafar forsetavalds fengið sín laun lækkuð með sömu aðferð hvenær sem var á þeim tveimur árum sem liðin eru frá lækkun launa forsetans.“

Í svarbréfi Hrannars hafnar hann alfarið „dylgjum“ um að hafa farið rangt með staðreyndir. Hann segir að skýrt hafi komið fram að forsætisráðherra hafi nýlega fengið upplýsingar um að launalækkunin hafi ekki náð til handhafa forsetavalds.

Hrannar bendir á að Jóhanna hafi ekki verið orðin forsætisráðherra í ársbyrjun 2009, og hafi því ekki haft forsendur til að meta hvort greiðslur handhafa forsetavalds hefðu lækkað.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×