Innlent

Enn óvíst hvort ríkið kynnir Icesave-málið

Kjósendum var sendur bæklingur fyrir Icesave-kosninguna 2010. fréttablaðið/daníel
Kjósendum var sendur bæklingur fyrir Icesave-kosninguna 2010. fréttablaðið/daníel
Leita lausnar Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson.fréttablaðið/hari
Ríkisstjórnin hefur ekki ákveðið hvort og þá hvernig staðið verði að sérstakri kynningu á Icesave-málinu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir málið enn í vinnslu. Ráðuneyti hans muni að sjálfsögðu uppfylla þær skyldur sem því eru lagðar á herðar samkvæmt lögum en í þeim segir að senda beri öllum heimilum í landinu sérprentun laganna sem forseti synjaði staðfestingar. Jafnframt skuli vakin athygli á því að frumvarpið til laganna og öll skjöl varðandi meðferð þess séu aðgengileg á áberandi stað á vefsíðu Alþingis.

Ögmundur segir að þetta verði að sjálfsögðu gert. „Svo lít ég svo á að það sé mikilvægt að kjósendur fái vitneskju um hvar upplýsinga er að afla frá mismunandi sjónarhornum. Hvað gert verður til að ná þessu markmiði er ekki endanlega frá gengið. Meginábyrgðin á því að koma upplýsingum til skila til almennings hvílir hins vegar á fjölmiðlum sem eru vettvangur lýðræðislegrar umræðu í landinu. Ég horfi til fjölmiðlanna, að þeir rísi undir þeirri ábyrgð sinni en að við, fyrir okkar leyti, sjáum til þess að fólki verði greiður aðgangur að upplýsingum."

Samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu stendur vilji Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra til þess að útbúinn verði upplýsingabæklingur og sendur kjósendum.

Sú leið var farin þegar þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave fór fram á síðasta ári. Þá var Lagastofnun Háskóla Íslands falið að útbúa hlutlaust kynningarefni sem bæði var sent inn á heimili og birt á sérstakri vefsíðu. Sú leið verður að líkindum ekki farin nú. Horft er til þess að kynningarefnið verði unnið í fjármálaráðuneytinu og auglýsingastofu falin framsetning.

Í auglýsingu innanríkisráðuneytisins í vikunni kom fram hvernig spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni verður fram borin. Jafnframt var vísað á vef Alþingis, althingi.is, þar sem skjöl er varða meðferð málsins í þinginu eru birt.

bjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×