Innlent

Gæfa landsins hvað við erum fá

"Við getum ekki leyft okkur að taka ákvarðanir til að bjarga einhverju fyrir horn fram að næstu kosningum,“ segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.Fréttablaðið/GVA
"Við getum ekki leyft okkur að taka ákvarðanir til að bjarga einhverju fyrir horn fram að næstu kosningum,“ segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.Fréttablaðið/GVA
Þegar talið berst að leiðum til að komast út úr kreppunni og búa til störf eru umhverfissjónarmið gjarnan látin mæta afgangi. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lítur á það sem sitt hlutverk að standa vörð um umhverfismálin. Hún hefur staðið í ströngu frá því hún tók við embættinu árið 2009.

Hvernig metur þú stöðu umhverfis- og mengunarmála hér á landi? Getur þú sagt sem umhverfisráðherra að Ísland sé þetta hreina og ómengaða land sem það er gjarnan sagt vera við hátíðleg tilefni?

Umhverfismál og umhverfisumræðan á Íslandi er talsvert á eftir ef við berum okkur saman við hin Norðurlöndin. Við erum að sumu leyti að taka umræðu hér sem hefur náð að festast betur í sessi á Norðurlöndunum.

Við erum ennþá að deila um hvort umhverfissjónarmið eigi rétt á sér yfir höfuð. Málsmetandi menn í forystu atvinnulífsins stinga meira að segja upp á því í fullri alvöru í virðulegum viðtölum að það eigi að leggja ráðuneyti umhverfismála niður. Nágrannaþjóðirnar eru einfaldlega komnar lengra í þessari umræðu, þar þurfa menn ekki að standa í varnarbaráttu fyrir því að málaflokkurinn sé til.

Við erum að sumu leyti útbelgd af ýmsum mýtum, um að við búum hér við meiri hreinleika en gerist og gengur. Ég hef stundum sagt að það sé okkar gæfa hvað við erum fá. Ef við værum mikið fleiri væri landið ekki jafn hreint og það þó er, vegna þess að við göngum frekar illa um. Við náum ekki að skemma það jafn mikið og við gætum gert ef við værum fleiri. Þar má til dæmis nefna utanvegaakstur og hversu skammt við erum á veg komin með neytendavitund á sviði sorps og úrgangs.

Hvergi bannað að mengaAðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor við HÍ, hefur sagt að umhverfislöggjöfin hér á landi sé úrelt. Hún sé orðin 30 ára gömul og svari kalli tímans engan veginn. Munt þú beita þér fyrir heildarendurskoðun umhverfislaganna?

Tilhneigingin hefur verið sú að umhverfislöggjöfin sé fyrst og fremst löggjöf ferla. Það er löggjöf sem segir til um hvernig standa skuli að fundum, kynningum, mati og fleira í þeim dúr, en kannski minna um efnislega þætti. Þetta endurspeglast vel í mengunarlöggjöfinni, þar sem hvergi kemur fram að það megi ekki menga. Okkar aðferð hefur verið að fela takmarkanir í starfsleyfum. Við setjum þeim skilyrði sem eru að fara út í mengandi starfsemi, hvort sem það er svínabú eða álver, og búum til skilmála utan um starfsemina. Að þessu hefur Aðalheiður fundið, að það séu ekki skýrari efnisleg atriði í lögunum, hvað má og hvað má ekki. Einnig hefur hún fjallað um skort á því að meginreglur umhverfisréttarins séu til staðar í löggjöfinni.

Við umhverfissinnar höfum haldið mikið í að setja framkvæmdir í mat á umhverfisáhrifum. Svo sjáum við eftir því sem árunum vindur fram að mat á umhverfisáhrifum verður stundum ekkert annað en hraðahindrun. Matið snýst um að fá öll umhverfisáhrifin fram, eins og orðið gefur til kynna, en hvað svo? Framkvæmdaaðilinn getur eftir sem áður farið í verkefnið ef hann fær til þess leyfi óháð áhrifunum. Það eina sem hefur breyst er að það liggur fyrir hver áhrifin á umhverfið verða. Það eru engir innbyggðir stopparar, það er ekki þannig að þegar farið er yfir einhver mörk sé verkefnið sjálfkrafa stöðvað. Ég sé sem náttúruverndarsinni að löggjöfin er veik þegar kemur að því að náttúran njóti vafans.

Ég er að láta endurskoða náttúruverndarlögin, það starf hófst fljótlega eftir að ég tók við sem umhverfisráðherra árið 2009 og er nú langt komið. Hér er líka í gangi skoðun á lagaumhverfi um villt dýr á Íslandi, þar með talið um fugla og skotveiðar. Svo er ég setja í gang á þessu ári endurskoðun á landgræðslu- og skógræktarlögum sem eru frá 6. og 7. áratug síðustu aldar svo það er kominn tími til að endurskoða þau. Ætli ég þurfi ekki að vera verulega lengi í umhverfisráðuneytinu til að ljúka þessum málum öllum.

Líka má nefna innleiðingu Árósasamningsins sem er væntanleg í frumvarpi á þessu þingi og frumvarp um umhverfisábyrgð sem er til umfjöllunar hjá umhverfisnefnd þingsins. Hvort tveggja mjög mikilvæg löggjöf til að styrkja stöðu náttúrunnar.

Við tölum gjarnan um að við eigum þessa grænu og hreinu orku, en verðum að átta okkur á því að þar eru ákveðin umhverfisútgjöld. Sérstaklega þegar kemur að jarðhita, þar sem við erum meðal annars að glíma við brennisteinsmengun. Við höfum ekki verið hikandi við að byggja hér upp mjög metnaðarfullar og einhliða áætlanir um stóriðju sem fela í sér losun gróðurhúsalofttegunda umfram allt sem eðlilegt er í litlu samfélagi. Jafnvel á grundvelli þess að orkan sé hrein og græn.

Þegar fólk er spurt hverju það sé stoltast af nefnir það sjaldnast tungumálið, fánann, þjóðsönginn eða forsetann, heldur fyrst og fremst náttúruna. Þannig að þegar allt kemur til alls er það þó hún sem við viljum standa vörð um, en bara ekki núna heldur seinna.

Núna vilja sumir uppbyggingu og störf, þótt slíkt geti myndað álag á náttúruna og jafnvel spillt henni. Það að verja náttúruna og gera kröfu um sjálfbæra umgengni um hana gerir kröfu um nýja hugsun. Það gerir kröfu um að teknar séu ákvarðanir sem standa í 50 ár eða 100 ár.

Við getum ekki leyft okkur að taka ákvarðanir til að bjarga einhverju fyrir horn fram að næstu kosningum. En ég vil leggja áherslu á að umhverfisvernd og atvinnuuppbygging eru í mínum huga ekki andstæður.

Díoxínmengun alvarlegt málMengun hefur mikið verið til umfjöllunar vegna mála sem tengjast sorpbrennslu og losunar eiturefna, meðal annars díoxíns. Hvar liggur ábyrgðin í þessu máli helst að þínu mati? Sveitarfélögin og Umhverfisstofnun hafa viðurkennt að hafa sofið á verðinum en liggur ábyrgðin ekki alltaf hjá ráðherra þegar upp er staðið?

Það er þannig í öllum málaflokkum að endanleg ábyrgð liggur hjá ráðherranum. Einmitt þess vegna tók ég þetta mál mjög alvarlega og óskaði eftir því að Ríkisendurskoðun færi yfir málið frá upphafi. Mér fannst ekki ganga að við hjá umhverfisráðuneytinu, eða Umhverfisstofnun færum að skoða okkar eigin mál, heldur fannst mér mikilvægt að Ríkisendurskoðun færi yfir málið allt frá því óskað var eftir undanþágu frá Evrópureglunum vegna sorpbrennslanna. Það hefur kannski skort á að menn líti á það sem sitt hlutverk að upplýsa almenning.

Umhverfisstofnun hefur sett af stað rannsóknaráætlun í tengslum við þetta mál. Þar er stofnunin ekki bara að rannsaka nágrenni sorpbrennslanna, heldur einnig aðrar uppsprettur díoxínmengunar, sem eru bæði álverin og önnur stóriðja. Mér finnst þetta mjög alvarlegt mál sem þarf að taka á með myndugleika og skörungsskap.

Getur þú sem umhverfisráðherra fullyrt að það séu engin önnur svipuð mál núna kraumandi einhvers staðar og almenningi hefur ekki verið sagt frá?

Ég get ekkert fullyrt um að það sé ekki eitthvað einhvers staðar, en ég hef lagt metnað minn í að bæta þessa hlið umhverfismála, að styrkja eftirlitshlutverkið. Ég lít svo á að Umhverfisstofnun eigi að starfa sem eins konar Fjármálaeftirlit í umhverfismálum. Það er stofnunin sem á að sjá til þess að farið sé eftir mengunarlöggjöfinni og umhverfislöggjöfinni. Þess vegna er hlutverk hennar mjög dýrmætt.

Það þarf að skoða eftirlitsstofnanir í umhverfismálum alveg eins og skoða þurfti aðra geira samfélagsins sem brugðust í aðdraganda hrunsins.

Skotleyfi á umhverfisráðherraÞú hefur verið harðlega gagnrýnd af ýmsum fyrir störf þín sem umhverfisráðherra. Þú hefur verið kölluð hryðjuverkamaður, fyrirtæki á Suðurnesjum hafa birt auglýsingar sem beindust gegn þér og fleira í þeim dúr. Hvernig er að vera skotspónn áhrifamikilla hópa í samfélaginu?

Það er ekkert skemmtilegt að vera skotspónn. Það er ekkert þægilegt. En það skerpir kannski línurnar að einhverju leyti. Það er mín einlæga upplifun og tilfinning að ég sé bara að vinna vinnuna mína. Ég er bara að sinna starfi umhverfisráðherra, hvernig í ósköpunum á ég að gera það öðruvísi en að standa stífan vörð um náttúruvernd og umhverfissjónarmið? Til hvers erum við með umhverfisráðuneyti ef það á ekki að vera þannig?

Ég er hugsi yfir því að það skuli kalla á svona ofboðslega hörð viðbrögð. Það gæti skýrst að einhverju leyti af því að þetta sé nýtt, að það sé verið að taka rými í samfélagsumræðunni sem einhverjir aðrir hafa átt áður. Að það sé verið að efast um vald einhvers annars, um hefðbundin sjónarmið um atvinnumál og uppbyggingu eigi að ráða för.

Ég hef líka velt fyrir mér kynjavinklinum í þessu. Ég er femínisti og hef áhuga á þeim sjónarmiðum. Stjórnmál eru fyrst og fremst vettvangur karla, búin til á forsendum karla. Svo koma konur og reyna að búa sér til rými. Það sama gildir sennilega um umhverfismál sem málaflokk. Hann kemur inn í umhverfi þar sem ekki er gert ráð fyrir þessum sjónarmiðum. Á sama hátt eru umhverfismálin að reyna að fóta sig í umhverfi þar sem ekki er gert ráð fyrir þeim. Þegar kona tekur mikið pláss undir merkjum þessa málaflokks verða mögulega mögnunaráhrif á báða bóga.

Svo er það þannig að það verður til skotleyfi, við vitum hvernig það virkar. Þegar einhver einn byrjar að kalla einhvern annan fífl virðist öðrum þykja í lagi að gera það líka. Það virðist vera orðið þannig að það teljist ekkert tiltökumál þegar ég og mín verk eru annars vegar að taka djúpt í árinni. Það er fyrst og fremst ósiður, en auðvitað er þetta slítandi. Mótlætið styrkir mig þó eindregið í þeirri trú að umhverfismálin séu brýnasti málaflokkur nýrrar aldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×