Innlent

Ferðalögin kosta 217 þúsund krónur á dag

Forseti Íslands og forsetafrú heimsóttu Indland í janúar í fyrra.
Forseti Íslands og forsetafrú heimsóttu Indland í janúar í fyrra.
Kostnaður skattgreiðenda við hvern dag sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var erlendis í fyrra var um 217 þúsund krónur samkvæmt útreikningum Fréttablaðsins. Árið áður var meðaltalskostnaðurinn 163 þúsund fyrir hvern dag.

Heildarkostnaður við ferðalög forseta Íslands og forsetafrúar var ríflega 9,7 milljónir króna á síðasta ári, og um 4,4 milljónir árið 2009. Þetta kemur fram í svari embættis forseta Íslands við fyrirspurn Stöðvar 2.

Meðaltalskostnaður á dag er misjafn milli ára. Þar skiptir miklu hversu margar ferðir eru farnar, hversu langt er farið og hvort forsetafrúin er með í för. Greiðslur vegna fargjalda, gistingar, dagpeninga og annars ferðakostnaðar Ólafs Ragnars námu ríflega 6,9 milljónum í fyrra. Við það bætast greiðslur vegna fargjalda Dorritar Moussaieff forsetafrúar, alls um 2,8 milljónir. Dorrit hefur aldrei þegið dagpeninga á ferðalögum.

Árið 2009 voru greiðslur vegna fargjalda, gistingar, dagpeninga og annars ferðakostnaðar Ólafs Ragnars rúmlega 3,8 milljónir. Greiðslur vegna fargjalda Dorritar voru um 600 þúsund krónur.

Við þennan kostnað bætast greiðslur til handhafa forsetavalds í fjarveru Ólafs Ragnars. Forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar skipta með sér sem samsvarar launum forseta fyrir hvern dag sem forsetinn er ekki á landinu. Samkvæmt útreikningum Fréttablaðsins nema þær greiðslur um 20 þúsund krónum á dag fyrir hvern handhafa forsetavalds.

Samanlagt fengu handhafarnir þrír tæplega 5,2 milljónir króna í aukagreiðslu vegna þessa í fyrra, og tæplega 3,2 milljónir árið áður.

- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×