Innlent

Auknar kvaðir gætu verðfellt bújarðir

Magnús Leopoldsson
Magnús Leopoldsson
Í sveitinni
Magnús Leopoldsson fasteignasali deilir ekki þeirri skoðun með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gildandi jarðalög séu ógn við matvælaöryggi í landinu og aftri nýliðun í bændastétt.

Í ræðu á Búnaðarþingi boðaði Jón Bjarnason breytingar á jarðalögum, „einkum til að formfesta skynsamlega landnýtingu með tillti til fæðuöryggis þjóðarinnar.“ Sagði hann Íslendinga hafa horft aðgerðarlausa á bestu bújarðirnar í frjósömustu sveitunum teknar úr ræktun og jafnvel gerðar ónýtanlegar til matvælaframleiðslu. „Tryggja þarf ábúð á bújörðum og að landbúnaðarland sé nýtt af skynsemi...,“ sagði hann og vék að mikilvægi nýliðunar í stéttinni.

Magnús Leopoldsson, sem hefur annast jarðasölu um árabil, telur bújarðakaup fólks utan bændastéttar í engu ógna matvælaöryggi. Bújarðir séu margar og að auki alsiða að þeir sem ekki nýti tún feli þau bændum til nýtingar. Þá geti hörgull á jarðnæði ekki verið ástæða lítillar nýliðunar í landbúnaði. „Þar ráða aðrir þættir. Það hefur verið erfitt fyrir ungt fólk að byrja búskap svo lengi sem ég man. Það kostar nefnilega peninga að hefja búskap eins og gildir um allan annan atvinnurekstur.“

Aðspurður segir Magnús að bújarðir gætu hæglega fallið í verði með auknum kvöðum. Bændum sé lítill greiði gerður með því að ríkisvaldið verðfelli jarðir þeirra.

Á hitt beri að líta að land á Íslandi sé mjög ódýrt. „Mér er sagt að land hér sé á svipuðu verði og í Moldavíu. Land er sumsé hvergi í heiminum ódýrara en hér. En fasteignirnar utan um matvælaframleiðsluna kosta sitt.“

Magnús segir gott að málefni landbúnaðar og jarðnæðis séu tekin til skoðunar enda blasi við margs konar vandamál. Hann trúi þó ekki að bændum verði gert erfiðara fyrir en nú er að selja jarðir sínar. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×