Innlent

Skólinn liðist í sundur við sameiningu

Hvassaleitisskóli Foreldrar eru ósáttir við sameiningarhugmyndir borgaryfirvalda og telja að þær geti grafið undan starfsemi skólans. Fréttablaðið/Daníel
Hvassaleitisskóli Foreldrar eru ósáttir við sameiningarhugmyndir borgaryfirvalda og telja að þær geti grafið undan starfsemi skólans. Fréttablaðið/Daníel
Foreldrar barna í Hvassaleitisskóla hafna alfarið fyrirhugaðri sameiningu skólans og Álftamýrarskóla og saka borgaryfirvöld um vanvirðingu í garð barna, foreldra og starfsfólks skólans.



Í umdeildri skýrslu starfshóps borgarinnar um sameiningar skóla er lagt til að skólarnir verði sameinaðir, bekkir á unglingastigi í Hvassaleitisskóla verði aflagðir og nemendur fari þess í stað í Álftamýrarskóla eða Réttarholtsskóla. Rúmlega 200 börn eru nú í Hvassaleitisskóla.

Einar Ólafsson, varaformaður foreldrafélags Hvassaleitisskóla, segir í samtali við Fréttablaðið að þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hafi þau engar upplýsingar fengið um sameininguna.

„Við höfnum þessum tillögum, enda er ekki hægt að samþykkja neitt ef upplýsingar liggja ekki fyrir.“

Einar segir að margt skjóti skökku við í framsetningu skýrslunnar. Ein helstu rökin á bak við þessa sameiningu er fækkun barna í hverfinu og fyrirsjáanleg fækkun barna á skólaaldri næstu ár. Einar segir að horfa ætti til lengri tíma en gert er í skýrslunni. „Við hefðum viljað sjá nemendaspá fyrir næstu átta til tíu ár að lágmarki. Það er verið að skipuleggja til langs tíma og þá er rétt að skoða nemendafjöldann til lengri tíma líka.“

Einar segir foreldra ekki andsnúna hagræðingu en þeir hafi áhyggjur af því að með færslu unglingabekkjanna verði grafið undan skólanum.

„Þá hljóta foreldrar að velta því fyrir sér hvort ekki sé best að færa öll börnin strax yfir í Álftamýrarskóla. Þetta er eins og að kasta sprengju þarna inni því að skólinn mun springa og liðast í sundur frá og með næsta hausti ef þetta gengur eftir.“

Eva Einarsdóttir, borgarfulltrúi Besta flokksins og fulltrúi í starfshópnum, segir í samtali við Fréttablaðið, að spár um nemendafjölda hafi kallað á að skólastarfið í Hvassaleitisskóla væri skoðað.

„Vissulega getur þetta haft áhrif þegar fólk flytur í hverfið og er að ákveða skóla fyrir börnin sín. En þar sem þetta er mjög viðkvæmt mál mun þetta ekki koma til framkvæmda fyrr en á næsta ári.“

Í vannýttu húsnæði skólans ráðgera borgaryfirvöld að koma fyrir þjónustu- eða menningarstarfsemi fyrir hverfið, til að mynda bókasafni, en Einar segir foreldra ekki hrifna af þeirri hugmynd.

„Frekar væri hægt að hugsa sér að sjá þar eitthvað skólatengt, líkt og tónlistarskóla, myndlistarskóla eða leiklistarskóla.“

Sameiningartillögurnar eru nú í umsagnaferli sem mun standa til 25. mars. thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×