Lífið

Gríðarleg pressa að taka við Stundinni okkar

Margrét og Oddur ætla að skrifa Stundina okkar saman, en hún sér um að leika. Fréttablaðið/Pjetur
Margrét og Oddur ætla að skrifa Stundina okkar saman, en hún sér um að leika. Fréttablaðið/Pjetur
„Við ætlum að gera það sem okkur finnst skemmtilegt og sjá hvort það virkar," segir leikkonan Margrét Sverrisdóttir.

Margrét hefur tekið við Stundinni okkar ásamt eiginmanni sínum, leikstjóranum Oddi Bjarna Þorkelssyni. Ný þáttaröð af ástsælasta barnaþætti Íslandssögunnar hefst í haust, en Margrét og Oddur eru þegar byrjuð að leggja drög að þáttunum.

Um hundrað umsóknir bárust Ríkissjónvarpinu vegna lausrar stöðu umsjónarmanns Stundarinnar á dögunum eftir að leikarinn Björgvin Franz Gíslason ákvað að segja skilið við þáttinn og flytja með fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna.

„Þetta leggst gríðarlega vel í okkur. Við skrifum þættina saman og ég sé um að leika," segir Margrét og játar að þau séu mikið áhugafólk um barnaefni.

„Við höfum undanfarin ár unnið mikið í barnaefni," segir hún. „Við höfum verið sérlegir aðstoðarmenn jólasveinanna í Dimmuborgum. Svo erum við að leikstýra leikhópnum Lottu, sem er ferðaleikhópur sem sýnir fyrir börn á sumrin."

Börn geta verið harðir gagnrýnendur og Margrét segir að pressan sé mikil þar sem þau eru að taka við einu af flaggskipum Sjónvarpsins. „En við reynum að hugsa ekki um það og ætlum að gera þetta almennilega. Reynslan hefur sýnt okkur að það er ekki hægt að geðjast öllum. Fólk hefur mismunandi smekk," segir hún.

Spurð hvort Stundin okkar sé það stærsta sem reynsluboltar í barnaefni á Íslandi geti tekið að sér hikar hún ekki og segir svo vera. „Þetta er elsti sjónvarpsþátturinn fyrir utan fréttir. Það hafa allir skoðun á Stundinni okkar. Þetta er gríðarleg ábyrgð."

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.