Lífið

Fimm vinklar The Strokes

Angles, fjórða plata The Strokes, kemur út í næstu viku. Hljómsveitin hefur boðið aðdáendum sínum upp á að hlusta á plötuna á heimasíðu sinni, thestrokes.com, síðustu daga. Atli Fannar Bjarkason renndi yfir hana og skoðaði tilurð hennar.

Albert Hammond Jr., gítarleikari The Strokes, útskýrði í viðtali við tímaritið Rolling Stone að nafn væntanlegrar plötu The Strokes, Angles eða Vinklar, ætti að gefa til kynna að fimm tónlistarmenn hefðu unnið plötuna saman. Platan kemur út í næstu viku, en rúmlega fimm ár eru síðan síðasta plata hljómsveitarinnar kom út. Nafn plötunnar virðist tengjast því að fréttir bárust reglulega af deilum innan hljómsveitarinnar þegar vinna að henni stóð yfir. Það virðist við fyrstu hlustun ekki koma niður á plötunni, sem er heilsteypt og hljómar eins og hún sé gerð af samrýndri hljómsveit.

Ýmislegt gekk á við vinnslu plötunnar. Hún átti fyrst að koma út seint árið 2009, en ágreiningur innan hljómsveitarinnar um hvort lögin væru tilbúin eða ekki varð til þess að útgáfunni var frestað. Þá átti upptökustjórinn Joe Chicarelli að stýra upptökum á plötunni. Hann hefur unnið með hljómsveitum á borð við U2, My Morning Jacket og The Shins, en meðlimir The Strokes voru ekki ánægðir með hann, slitu samstarfinu og hentu nánast öllum upptökunum. Chicarelli stýrði því aðeins upptökum á einu lagi sem endaði á plötunni og var það lokalagið Life Is Simple in the Moonlight. Hljómsveitin byrjaði upp á nýtt í hljóðveri gítarleikarans Alberts Hammond Jr. með upptökustjóranum Gus Oberg, sem kláraði plötuna.

Bassaleikarinn Nikolai Fraiture sagði í viðtali við Rolling Stone að Angles væri afturhvarf til einfaldleikans sem einkenndi fyrstu plötu The Strokes, Is This It.

Fraiture hefur rétt fyrir sér að einhverju leyti. Lagasmíðarnar á Angles eru vissulega ekki flóknar, enda hefur The Strokes aldrei gert tilraunir til að finna upp hjólið. En það eru tíu ár á milli Is This It og Angles og það heyrist vel. Hljómsveitin leikur sér með stílinn á Angles og skemmtileg notkun á hljóðgervlum er áberandi.

The Strokes er löngu búin að sanna sig sem ein af merkustu hljómsveitum sinnar kynslóðar. Við fyrstu hlustun virðist Angles aðeins ætla að auka hróður hljómsveitarinnar.

atlifannar@frettabladid.is

Myndir Nordicphotos/Getty
.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.