Innlent

Hljóp uppi símaþjóf í Barcelona

Arnar Grant og Ívar Guðmundsson lentu í honum kröppum í Barcelona.Mynd/Jói Kjartans
Arnar Grant og Ívar Guðmundsson lentu í honum kröppum í Barcelona.Mynd/Jói Kjartans
Kraftakarlinn Arnar Grant var rændur þegar hann var í Barcelona við tökur á sjónvarpsþáttunum „Arnar og Ívar á ferð og flugi“ sem hefjast á Stöð 2 á fimmtudaginn.

„Ég sat á römblunni og þá kom pottormur og tók símann minn sem lá á borðinu. Hann sprettaði í burtu og ég tætti á eftir honum,“ segir Arnar. „Ég náði í rassgatið á honum, lyfti honum upp, hristi hann til og reif símann af honum. Svo las ég honum pistilinn á íslensku og labbaði bara til baka. Ég held að honum hafi verið nokkuð brugðið og ég er nokkuð viss um að hann hafi lært sína lexíu.“

Í þáttunum ferðast Arnar og útvarpsmaðurinn Ívar Guðmundsson til fimm borga, eða Barcelona, Berlínar, Kaupmannahafnar, London og New York, og lenda í hinum ýmsu ævintýrum. Í fyrsta þættinum í Barcelona spreyttu þeir sig á nautaati í fyrsta sinn. „Við mættum klukkutíma of seint og þá var búið að æsa nautin upp í heilan klukkutíma þegar þeim var hleypt í hringinn,“ greinir Arnar frá. „Það var mikið span á þeim og ég held að við höfum aldrei verið eins hræddir á ævinni. Ég tapaði þarna veðmáli fyrir Ívari og þurfti að vera í rauðum bol sem er ekki gæfulegt fyrir nautin.“

Í Kaupmannahöfn hittu þeir Casper Christensen úr sjónvarpsþáttunum Clovn og fór vel á með þeim félögum. „Hann borðaði með okkur smörrebrod og það kom mikið á óvart hvað hann er skemmtilegur fýr. Hann sagði okkur margar sögur sem er kannski ekki við hæfi að segja neins staðar.“ -fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×