Innlent

Gera sér óraunhæfar væntingar

Árni páll Tveir mánuðir eru þar til öll fyrirtæki hafa fengið tilboð um leiðréttingu skulda í gegnum Beinu brautina.
Árni páll Tveir mánuðir eru þar til öll fyrirtæki hafa fengið tilboð um leiðréttingu skulda í gegnum Beinu brautina.
Færri fyrirtæki hafa farið í gegnum Beinu brautina svokölluðu en vonir stóðu til. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, fjallaði um framganginn á fundi í gær. Beina brautin er samkomulag opinberra aðila og hagsmunaaðila í atvinnulífinu sem kynnt var um miðjan desember um úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Árni benti á að í lok febrúar hefðu 363 fyrirtæki sem féllu undir samkomulagið fengið tilboð um endurskipulagningu skulda. Það er nokkuð undir væntingum en stefnt var að því að þau væru nú orðin fimm hundruð. Tveir mánuðir eru þar til öll fyrirtækin sem falla undir samkomulagið verða komin með tilboð um aðstoð.

Þau fyrirtæki sem hafa farið alla leið fengu skuldir lækkaðar um fimmtíu milljónir króna að meðaltali.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, sögðu báðir verkefnið þungt í vöfum og margt tefja fyrir. Öðru fremur væri það óvissa í gengislánamálum auk þess sem forsvarsmenn sumra fyrirtækja gerðu sér óraunsæjar væntingar um niðurfærslu skulda. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×