Innlent

Bæjarfulltrúar verða að geta tjáð sig

Guðríður Arnardóttir Á bæjarstjórnarfundi í Kópavogi.fréttablaðið/Stefán
Guðríður Arnardóttir Á bæjarstjórnarfundi í Kópavogi.fréttablaðið/Stefán
Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs í Kópavogi, gerir enga athugasemd við að fólk leiti álits innanríkisráðuneytisins á því að Kópavogsbær greiði kostnað hennar og tveggja annara bæjarfulltrúa vegna meiðyrðamáls sem Frjáls miðlun höfðaði gegn þeim.

Hún segir hins vegar misskilning hjá Jóhanni H. Hafstein héraðsdómslögmanni, sem kveðst fara fyrir hópi íbúa sem setur sig upp á móti greiðslunni, að bæjarstjórn eigi eftir að fjalla um málið. „Málið var afgreitt í bæjarráði og það var fullnaðarafgreiðsla.“

Guðríður segist hins vegar telja að fari fólk yfirvegað yfir staðreyndir málsins hljóti flestir að átta sig á mikilvægi þess að kjörnir fulltrúar geti tjáð sig óhindrað um mál sem að sveitarfélagi þeirra snúa. Jafnframt bendir hún á að leitað hafi verið álits bæði lögmanns Sambands íslenskra sveitarfélaga og Lagastofnunar Háskólans, á málinu.

Eins bendir Guðríður á að fordæmi séu fyrir því að sveitarfélög greiði viðlíka kostnað. Þannig hafi Umboðsmaður Alþingis beint því til A-Eyjafjallahrepps árið 2001 að greiða kostnað skólanefndarfólks í meiðyrðamáli á hendur þeim.

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði bæjarfulltrúana í nóvember af kröfum Frjálsrar miðlunar, en dómnum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Tapi bæjarfulltrúarnir málinu þar segir Guðríður þá sjálfa bera kostnað af málarekstrinum, enda sé þá ljóst að þau hafi farið út fyrir þann ramma sem þeim sé settur í störfum sínum.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×