Innlent

Láta allt vera nema verðmæta skartgripi

Innbrotsfaraldur
Þjófarnir sem eru að verki þessa dagana eru á ferðinni eftir hefðbundinn vinnutíma fólks, að sögn lögreglufulltrúa á höfuðborgarsvæðinu.
Innbrotsfaraldur Þjófarnir sem eru að verki þessa dagana eru á ferðinni eftir hefðbundinn vinnutíma fólks, að sögn lögreglufulltrúa á höfuðborgarsvæðinu.
Innbrotsþjófar, sem einkum eru á höttunum eftir dýrum skartgripum, hafa á undanförnum vikum herjað á tiltekin hverfi á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla segir um faraldur að ræða. Meðal annars var dýrmætum ættagripum stolið frá konu sem Fréttablaðið ræddi við í gær.

Á undanförnum mánuði hafa um tuttugu innbrot verið framin í einbýlishúsahverfum í Hafnarfirði, Kópavogi og Grafarvogi. Hafa þjófarnir aðeins stolið dýrum skartgripum og ekki skilið eftir sig verksummerki, að skemmdum við innbrotin undanskilum.

Í sumum hverfanna þar sem fólk hefur orðið fyrir barðinu á innrbotsþjófum ætla íbúar að taka sig saman og koma á fót öflugri nágrannavörslu.

„Íbúar við götuna sem ég bý í ætla að efna til fundar með lögreglu og tryggingafyrirtækjum til að fá upplýsingar um viðbrögð gegn þessum innbrotum,“ segir Þorsteinn Vilhelmsson, íbúi í Kópavogi. Brotist var inn á heimili hans og eiginkonu hans um síðustu helgi. Brotist hefur verið inn á fimm heimili í hverfinu hans.

Þorsteinn segir nauðsynlegt að lögregla sé í stakk búin til að takast hratt og vel á við verkefni af þessu tagi.

Einar Ásbjörnsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, segir mikilvægt að fólk hafi tiltekin atriði í huga til að verjast innbrotsþjófum. Gæta þurfi að því að allar krækjur á hurðum og gluggum séu í lagi. Fólk þurfi að vera vakandi fyrir umferð fólks sem ekki virðist eiga erindi inn í götur, taka niður bílnúmer og hika ekki við að láta lögreglu vita þyki eitthvað grunsamlegt á ferðinni. Hús í jaðri hverfa hafi verið útsettari fyrir innbrotum. Gjarnan sé farið inn baka til í skjóli trjáa, sólpalla og skjólveggja. Þetta þurfi að hafa í huga.

„Yfirleitt eru innbrot framin á hefðbundnum vinnutíma fólks,“ útskýrir Einar. „En í þessari hrinu nú hafa þjófarnir yfirleitt verið seinna á ferðinni, jafnvel fram undir klukkan átta á kvöldin. Bíræfnin er því töluverð.“- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×