Innlent

Eina stelpan í keppninni fyndnasti Verzlingurinn

Margrét var á gráu svæði í uppistandinu sem tryggði henni sigur í keppninni fyndnasti Verzlingurinn.fréttablaðið/pjetur
Margrét var á gráu svæði í uppistandinu sem tryggði henni sigur í keppninni fyndnasti Verzlingurinn.fréttablaðið/pjetur
Margréti Björnsdóttur, fyndnasta Verzlingnum, fannst vanta fleiri stelpur í keppnina, sem fór fram í vikunni. Hún bjóst ekki við að fólk myndi hlæja að uppistandinu sem tryggði henni sigur.

„Ég er mikill grínari en þetta er í fyrsta skipti sem ég flyt uppistand," segir Margrét Björnsdóttir, nemandi í Verzlunarskóla Íslands.

Margrét kom, sá og sigraði í keppninni Fyndnasti Verzlingurinn síðasta fimmtudagskvöld. Í dómnefnd sátu Ari Eldjárn, Dóri DNA og Bergur Ebbi úr grínhópnum Mið-Íslandi og Ugla Egilsdóttir úr Uppistöðufélaginu. Margrét var jafnframt eina stelpan sem tók þátt og segir að keppnin hafi verið hörð. „Mér fannst svolítið leiðinlegt að vera eina stelpan, ég hefði viljað sjá fleiri," segir hún. „En mér fannst ég ekki geta bakkað úr þessu. Ég varð að vera fulltrúi kvenfólksins."

Margrét er formaður grínklúbbsins 12:00 í Verzló, en hún bjóst ekki við að vinna. „Ég var búin að ákveða að enginn myndi hlæja. Svo hlógu allir og skemmtu sér mjög vel," segir hún sátt. Spurð um umfjöllunarefni uppistandsins segist Margrét hafa verið á afar gráu svæði. „Ég byrjaði á að tala um reynslusögur," segir hún. „Ég hef lent í að pissa í mig úr hlátri og talaði aðeins um það. Svo talaði ég um prump og þá sérstaklega um stelpur sem prumpa."

Hún tekur fram að húmorinn sé einfaldur, en settur fram á skemmtilegan hátt. Þetta kom henni í gegnum fyrstu umferð, en í úrslitaumferðinni fór hún ennþá lengra út á gráa svæðið. „Þá var ég með uppistand um píkuprump. Fólk tók vel í hvað ég var óviðeigandi." Margrét segir það hafa verið heiður að vinna keppnina, sérstaklega þar sem hún hefur mikið álit á dómurunum. Hún tekur þó fram að þá Ara Eldjárn og félaga í Mið-Íslandi vanti kvenmann í hópinn. „Þannig að þeir vita af mér," segir Margrét. „Þeir geta haft samband. Ég er einmitt að leita að skemmtilegu sumarstarfi."atlifannar@fréttabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×