Innlent

Fylgja ekki sáttmála SÞ

Samtök um velferð barna hér á landi telja brýnt að íslensk stjórnvöld lögbindi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. fréttablaðið/hörður
Samtök um velferð barna hér á landi telja brýnt að íslensk stjórnvöld lögbindi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. fréttablaðið/hörður
Íslensk stjórnvöld standa ekki við fjölmörg atriði í samningi um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Í nýrri skuggaskýrslu Barnaheilla – Save the Children, Mannréttindaskrifstofu Íslands og UNICEF – Barnahjálpar SÞ á Íslandi, er farið yfir stöðu barna á Íslandi í samræmi við fjölmörg ákvæði Barnasáttmálans.

Skortur er á heildarstefnu stjórnvalda í málefnum barna og barnafjölskyldna. Brestur er talinn á því að 37. grein Barnasáttmálans sé uppfyllt hér á landi. Hún varðar ungmenni sem brjóta af sér og þurfa að sæta fangelsisrefsingu. Þau eru ekki alltaf vistuð aðskilin frá fullorðnum föngum. Samningur á milli Fangelsismálastofnunar og Barnaverndarstofu um vistun ungra afbrotamanna er í gildi en samkvæmt skýrslunni virkar hann ekki sem skyldi. Vinna mun vera hafin hjá innanríkisráðuneytinu til að tryggja að ungmenni séu aðskilin frá fullorðnum föngum, að því er kemur fram í skýrslunni.

Íslensk stjórnvöld staðfestu sáttmálann árið 1992, en samt sem áður er honum enn ekki fylgt að fullu. Tilgangur skýrslunnar er meðal annars sá að veita stjórnvöldum aðhald og leiðbeiningu. Gerðar hafa verið tvær aðgerðaáætlanir, annars vegar um barnavernd og hins vegar til að bæta stöðu barna og unglinga. Stjórnvöld eru hvött til aðgerða strax, meðal annars með því að nýta sér þær umfangsmiklu upplýsingar sem safnað er á hinum ýmsu sviðum í samfélaginu er varða börn og stöðu þeirra.

Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, segir brýnast að móta heildarstefnu í málefnum barna og að þeim aðgerðaáætlunum sem eru til staðar verði fylgt að öllu leyti.

„Við höfum lagt áherslu á börn innflytjenda og að það þurfi að fylgja þeim sérstaklega eftir,“ segir hún. „Einnig er mörgu ábótavant er varðar málefni fatlaðra barna.“

Petrína segir mikilvægt að Barnasáttmálinn verði lögfestur og kynntur því fagfólki er vinnur með börnum, bæði í námi og starfi.

„Þannig er hægt að sækja mál fyrir íslenskum dómstólum og vitna í Barnasáttmálann,“ segir hún. sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×