Innlent

Fimm milljarðar til Vestfjarða

Ríkisstjórnarfundur var haldinn á Ísafirði í gær.
Mynd/Halldór Sveinbjörnsson
Ríkisstjórnarfundur var haldinn á Ísafirði í gær. Mynd/Halldór Sveinbjörnsson
Á fundi sínum á Ísafirði í gær samþykkti ríkisstjórnin sextán verkefni sem eiga að efla byggð og atvinnusköpun í landshlutanum.  Samtals á að leggja um 5,4 milljarða króna í þessi verkefni, en af þeirri fjárhæð eru 1,5 milljarðar nýtt fé. Í tilkynningu frá stjórninni hafa þessi verkefni verið undirbúin í samvinnu allra ráðuneyta og í samráði við heimamenn.

„Verkefnin snúa meðal annars að menntun, velferð, umhverfismálum og auknum framkvæmdum í vegagerð og snjóflóðavörnum,“ segir í tilkynningunni.

„Ætlunin er að fylgja verkefnunum eftir á samráðsvettvangi stjórnvalda og sveitarfélaga með það að markmiði að ábyrgð þeirra færist í auknum mæli heim í hérað. Sú vinna tengist gerð sóknaráætlana landshluta og markmiðum sem sett eru fram í stefnumarkandi skjali stjórnvalda, Ísland 2020.“

Stærstur hluti fjárins fer í vegagerð, eða 4,3 milljarðar, en einn milljarður fer í ofanflóðavarnir á Vestfjörðum.

Afgangurinn, um 102 milljónir króna, fer í ýmis verkefni, svo sem uppbyggingu í menntamálum og rannsóknum, aukið framlag til Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, stofnun Látrabjargsstofu og til að tryggja rekstur Melrakkaseturs.

Þá verður sett fé í öldrunarþjónustu og ýmis átaksverkefni til atvinnusköpunar.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×