Innlent

Harma sölu sögulegra skákminja

Taflmennirnir voru notaðir í þriðju einvígisskákinni sem tefld var í bakherbergi Laugardalshallarinnar.
Taflmennirnir voru notaðir í þriðju einvígisskákinni sem tefld var í bakherbergi Laugardalshallarinnar.
Skáksamband Íslands harmar að munir úr einvígi Bobby Fishers og Boris Spasskí árið 1972 hafi verið seldir úr landi. Sambandið vill skrá hvar aðrir munir úr einvíginu eru niðurkomnir og að þeim sé safnað á einn stað.

Eins og komið hefur fram í fréttum voru taflmennirnir sem Spasskí og Fisher notuðu í frægri einvígsskák, ásamt árituðu skákborði, boðnir upp hjá uppboðsfyrirtækinu Philip Weiss á dögunum. Munirnir voru í eigu Guðmundar G. Þórarinssonar, fyrrverandi forseta SÍ, sem sá sig knúinn til að selja munina vegna skulda. Fyrir munina fékk Guðmundur tæpar átta milljónir króna.

Í tilkynningu SÍ er þetta harmað og segir jafnframt að mat Skáksambandsins sé að hér hafi verið um að ræða þjóðargersemar sem áttu að tilheyra íslensku þjóðinni.

Gunnar Björnsson, forseti SÍ, segir að þann lærdóm megi draga af sölu munanna úr landi að nú sé nauðsynlegt að kanna hvaða munir séu til sem tengjast einvíginu 1972. „Í dag vita menn ekki hvar þessir munir eru niður komnir. Við verðum að draga lærdóm af þessu atviki. Við megum ekki missa meira úr landi."

Í tilkynningu SÍ kemur fram að bókað hafi verið í fundargerð á stjórnarfundi Skáksambandsins haustið 1972 að Guðmundur fengi borðið að gjöf. Það sama haust er einnig bókað í fundargerð að allir stjórnarmenn fái einnig árituð borð af Fischer og Spasskí. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×