Innlent

Sérleyfi Herjólfs verði aflétt

Elliði vill að aðrir bátar og skip fái að sigla í Landeyjahöfn.
Elliði vill að aðrir bátar og skip fái að sigla í Landeyjahöfn. Mynd/Óskar P. Friðriksson
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, hefur ritað innanríkisráðherra og siglingamálastjóra bréf þar sem hann óskar eftir því að sérleyfi Herjólfs til siglinga í Landeyjahöfn verði þegar aflétt og öðrum bátum og skipum með leyfi til farþegaflutninga heimilað að nýta Landeyjahöfn.

Elliði bendir á að siglingar í Landeyjahöfn hafa legið niðri frá áramótum og enn virðist sem nokkur dráttur verði á að dýpi við höfnina verði nægjanlegt fyrir Herjólf. Ekkert sé hins vegar sem hindri að skip sem rista minna en Herjólfur noti höfnina.

Að sögn Elliða hefur samfélagið í Vestmannaeyjum orðið fyrir miklum skaða vegna vandamála sem komið hafa upp við Landeyjahöfn og ber hann því fram ósk sína með sérstöku tilliti til þess að háannatími í ferðaþjónustunni nálgast. Í fréttum RÚV í gær kom fram að Siglingamálastjórn leggst gegn hugmynd Elliða meðal annars af öryggisástæðum. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×