Litirnir í sumar eru sterkir og að sjálfsögðu tilbreyting frá öllum dökku vetrarlitunum en ekki síður frá hinum týpísku fölu sumarlitum í pastel sem svo gjarnan einkenna sumartískuna. Nú eru þeir fúksíubleikir, gulrauðir eða sítrónugulir og er jafnvel blandað saman fleiri en einum.
Látleysi er ekki lykilorðið í sumar því í viðbót við sterka liti er mikið um munstrað efni og oft í afgerandi litum. Þar getur allt eins verið um að ræða rómantískt blómamunstur með litlum frelsisblómum upp í heilu blómagarðana á flíkinni. Svo má nefna ýmis konar grafísk munstur í anda síðhippaáranna með skörpum línum. Blúndur og útsaumur eru enn áberandi hjá mörgum hönnuðum eins og hefur verið og oft eru stórar heklaðar blúndur saumaðar á annað efni.

Önnur góð frétt fyrir þá sem búa við lágan sumarhita er perfektó-leðurjakki sem er ómissandi í sumar, stuttur og dálítið rokkaralegur, til dæmis í rauðu leðri hjá Jean-Paul Gaultier, fínn til að halda á sér hita ef ekki rignir.
Nýjungarnar eru ekki margar hjá tískuhúsunum í sumar en ein þeirra er kragalaus jakki, bæði frá Carven og Stellu McCartney. Hins vegar sagði mér innkaupastjóri hjá einu af stóru magasínunum í París að kragalausir jakkar og frakkar væru alltaf erfiðir í sölu því viðskiptavinirnir spyrðu alltaf hvað ætti að setja um hálsinn.
Annað merkilegt: þó að hælar séu enn svimandi háir eru strigaskór í stíl Converse inni líka, hinar frægustu stjörnur spóka sig í þeim, jafnvel þær sem ganga um með fimm þúsund evru Hermès-töskur. Sumir hanna slíka skó fyrir þekkt skómerki en aðrir framleiða sína eigin, eins og Lanvin eða Dolce et Gabbana.
bergb75@free.fr