Innlent

Gæsluvarðhald framlengt yfir stórsmyglara

LSD. Stórhættulegt ofskynjunarlyf
LSD. Stórhættulegt ofskynjunarlyf
Gæsluvarðhald yfir karlmanni sem tekinn var með mikið magn af LSD og e-töflum á Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði, var framlengt í Héraðsdómi Reykjaness í gær til 20. apríl. Maðurinn situr í einangrunarvist.

Maðurinn sem er á þrítugsaldri var handtekinn ásamt konu á svipuðum aldri þann 23. mars síðastliðinn. Við athugun á farangri þeirra kom í ljós að faldir undir fölskum ferðatöskubotni voru 36 þúsund skammtar af e-töflum og 4.400 skammtar af ofskynjunarefninu LSD. Fólkið var að koma frá Las Palmas á Kanaríeyjum eftir að hafa dvalið í viku á Las Palmas.

Maðurinn og konan voru bæði úrskurðuð í gæsluvarðhald eftir handtökuna, en konunni hefur nú verið sleppt.

Ekki þótti þjóna rannsóknarhagsmunum að halda henni lengur, enda er maðurinn talinn eiga stærri hlut að máli heldur en hún. Bæði hafa komið við sögu lögreglu áður, vegna minni háttar afbrota.

Rannsókn lögreglu á málinu er enn í fullum gangi. Hún beinist meðal annars að því hvort fleiri og þá hverjir kunni að standa að smyglinu. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×