Innlent

Nefnd þingmanna móti öryggisstefnu

Ýmis hætta Meðal þess sem nefnd sem móta á þjóðaröryggisstefnu þarf að hafa í huga er hætta vegna mengunarslysa. Hér sést Goðafoss á strandstað við strendur Noregs nýlega.Nordicphotos/AFP
Ýmis hætta Meðal þess sem nefnd sem móta á þjóðaröryggisstefnu þarf að hafa í huga er hætta vegna mengunarslysa. Hér sést Goðafoss á strandstað við strendur Noregs nýlega.Nordicphotos/AFP
Nefnd tíu þingmanna allra flokka sem sæti eiga á Alþingi verður falið að móta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland nái þingsályktunartillaga sem utanríkisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi fram að ganga.

Grundvöllur þessarar fyrstu þjóðaröryggisstefnu sem íslensk stjórnvöld láta vinna verður herleysi, að því er fram kemur í tillögunni. Vinnu við stefnuna á að vera lokið í júní á næsta ári.

„Eitt af grundvallarhlutverkum stjórnvalda hverju sinni er að tryggja öryggi þjóðarinnar,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.

Hann segir öryggisstefnu landsins hingað til hafa beinst gegn hernaðarógn, en það þurfi að breytast. Flestir séu nú sammála um að engin hernaðarógn steðji að okkar heimshluta, þótt annars konar ógn geti steðjað að.

Hann nefnir til að mynda ógnir á borð við mengunarslys, farsóttir, skipulagða glæpastarfsemi, netglæpi og efnahagsþrengingar sem hafa áhrif þvert á landamæri ríkja. Þessar ógnir verði Ísland að taka alvarlega eins og önnur ríki.

Össur segist leggja mikla áherslu á að þverpólitísk samstaða náist í þingmannanefndinni. Aðeins þannig megi tryggja að svo breið sátt verði um stefnu landsins í þessum málaflokki að breytingar verði ekki gerðar þótt ríkisstjórnarskipti verði.

Þingmannanefndin á að fjalla um ýmis mál sem varða þjóðaröryggi, til dæmis aðild Íslands að varnarsamstarfi, samvinnu við önnur ríki, loftrýmisgæslu og ríkjasambönd um öryggi og varnir.

Össur segir að í starfi nefndarinnar sé allt undir, þar á meðal aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. „Ef það verður þverpólitísk niðurstaða um að það sé ekki rétt að vera í NATO hlýtur það að koma mjög alvarlega til álita, en ég á ekki von á að svo verði.“

Nefndin á jafnframt að skoða hvort rétt sé að koma upp sérstöku þjóðaröryggisráði eins og fjallað er um í áhættumatsskýrslu sem gefin var út árið 2009. Sé talin þörf á að koma upp slíku þjóðaröryggisráði þarf að fjalla um tengsl þess við almannavarna- og öryggisráð.

Þegar nefndin hefur mótað þjóðaröryggisstefnu mun utanríkisráðherra leggja fram á Alþingi tillögu um þjóðaröryggisstefnu á grundvelli starfs nefndarinnar.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×