Innlent

Óvæntur stormur og eldingum laust niður

Fallið tré Veðurhamurinn á sunnudag náði að fella þetta gamla grenitré í Fossvoginum í Reykjavík til jarðar. Sjálfur mun garðeigandinn einmitt nýlega hafa grisjað hávaxin tré á lóðinni og ætlað greninu að standa. Fréttablaðið/Anton
Fallið tré Veðurhamurinn á sunnudag náði að fella þetta gamla grenitré í Fossvoginum í Reykjavík til jarðar. Sjálfur mun garðeigandinn einmitt nýlega hafa grisjað hávaxin tré á lóðinni og ætlað greninu að standa. Fréttablaðið/Anton
„Þetta er svolítið vetrarlegt,“ viðurkennir Þorsteinn Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, spurður um harðar sviptingar í veðrinu síðustu daga.

Þorsteinn segir að kalt loft í háloftunum hafi valdið illviðrinu, geysilegu hvassviðri á sunnudag og éljaveðri með eldingum í kjölfarið. „Loftið varð óstöðugt og það mynduðust háreistir skúrabakkar. Í þeim eru alltaf líkur á að myndist eldingar,“ segir Þorsteinn.

Eldingaveðrið gekk með hagli yfir sunnanvert landið frá vestri til austurs frá því seint í fyrrinótt og fram eftir degi í gær. Draga tók úr eldingavirkninni upp úr hádeginu.

Mikla hvellinn sem setti ferðaplön úr skorðum um allt land á sunnudag og olli ýmsum skemmdum og óhöppum segir Þorsteinn hafa komið dálítið í opna skjöldu. Í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi fór vindhraðinn upp í 50 metra á sekúndu í hviðum.

„Þetta var ótrúlega slæmt veður. Það var kröpp lægð sem kom nálægt landinu sem olli þessu hvassviðri. Ef lægðin hefði farið aðeins nokkrum tugum kílómetra vestar og fjær landinu þá hefði þetta ekki orðið svona slæmt,“ útskýrir veðurfræðingurinn. Áfram er spáð suðvestan éljaveðri í dag en á morgun segir Þorsteinn að búist sé við suðlægari átt með rigningu og allhvössum vindi.

Meðal þeirra sem lentu í vandræðum vegna veðurhamsins voru níu manns á sextíu feta skútu sem siglt hafði verið frá Ísafirði í skoðunarferð norður undir Jan Mayen. Þegar skútunni var siglt inn Skjálfanda í fyrrinótt á leið til Húsavíkur reyndist mótvindurinn svo mikill að áhöfnin óskaði aðstoðar úr landi. Fjórir menn fóru þá á hvalaskoðunarskipinu Knerrinum og drógu skútuna áleiðis til hafnar. Þegar þangað kom hugðist áhöfn skútunnar sigla henni fyrir eigin vélarafli síðasta spölinn en ekki vildi betur til en svo að dráttartaugin flæktist í skrúfu skútunnar.

„Þá strekktist á tauginni með þeim afleiðingum að hún kippti einum manni af Knerrinum fyrir borð. Annar sem var með fótinn í lykkju á tauginni ökklabrotnaði,“ segir Sigurður Brynjólfsson yfirlögregluþjónn. „Þeir sem eftir voru náðu síðan að hífa manninn um borð á dráttartauginni. Hinn var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þar sem gerð var aðgerð á fætinum á honum.“

Við það að fá reipið í skrúfuna misstu skipverjar á skútunni stjórn á henni svo hana rak umsvifalaust upp í sandfjöru við höfnina. Þaðan var hún síðan dregin óskemmd að sögn yfirlögregluþjónsins.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×