Stjórnarbót eða lokleysa? Þorsteinn Pálsson skrifar 16. apríl 2011 07:00 Forsetinn hefur breytt grundvallarþætti í stjórnskipun landsins. Óumdeilt er að afleiðingin af staðfestingarsynjun forseta er þjóðaratkvæði. Áður fyrr var það skilningur bæði stjórnskipunarfræðinga og stjórnmálamanna að það hefði einnig afleiðingar að beita ákvæðinu. Því fylgdi einfaldlega ábyrgð. Annaðhvort viki forsetinn eða ríkisstjórnin eftir því hvorum málsaðila þjóðin treysti. Forsetinn breytti ekki hinni skrifuðu stjórnarskrá. Hann sniðgekk hins vegar hina óskrifuðu reglu um ábyrgð. Umturnun hans á stjórnskipuninni felst í því að aftengja siðferðisgildi sem hún var reist á. Þó að breyting forsetans hafi fyrst og fremst þann tilgang að grafa undan Alþingi hafa allir stjórnmálaflokkarnir fallist á ábyrgðarleysiskenningu hans. Sakir þess situr ríkisstjórn sem tapaði stærsta pólitíska máli sínu í þjóðaratkvæði. Rökin fyrir vantraustinu í vikunni voru ekki þau að stjórnin ætti að taka afleiðingum þess að hafa tapað þjóðaratkvæðinu. Þau lutu fremur að hinu að hún er yfirhöfuð ekki vandanum vaxin. Vantraustið snerist því meir um pólitík en þá siðferðilegu kjölfestu sem áður var einn af hornsteinum stjórnskipunarinnar. Þegar forsetinn og forysta allra stjórnmálaflokka sameinast um að minni pólitísk ábyrgð bæti lýðræðið ætti að vera unnt að ganga út frá því sem vísu að svo sé. Allt er breytingum undirorpið. Ábyrgðarleysiskenningin virðist vera vinsæl hjá almenningi. Eigi að síður er ástæða til að velta því fyrir sér hvort hún er stjórnarbót eða lokleysa. Svívirða þá og nú Í fornöld voru kenningar í Aþenu um að málshefjendur ættu að hafa snöruna um hálsinn meðan þeir töluðu. Býsna harkalegt en sýnir að kenningin um að menn beri ábyrgð á skoðunum sínum á djúpar rætur. Þingvallafundurinn 1873 er þekkt dæmi úr sögu okkar og sýnir meiri hófsemd. Þar varð Jón Sigurðsson undir. Þegar eigi að síður átti að kjósa Jón til að mæla fyrir meirihlutatillögum á konungsfundi lét hann „á sér skilja að það væri að svívirða sig að ætla sér að flytja konungi það erindi sem alveg væri gagnstætt sannfæringu sinni.“ Öfugt við þetta sæmdarviðmið telur ríkisstjórnin að það sé svívirða að ætla henni ekki að flytja það erindi á erlendum vettvangi sem er andstætt sannfæringu hennar. Hér hafa gildi eins og ábyrgð og sæmd algjörlega verið slitin frá stjórnskipunarreglunum eftir kenningu forseta Íslands. Fyrir vikið lítur Alþingi út sem einhvers konar lokleysa. Þó að forsetinn segi að þetta sé lýðræðisleg framför sér þess hvergi stað. Álitaefnið er ekki hvort menn eru með eða á móti ríkisstjórninni heldur hitt á hvaða siðferðilegu stoðum menn telja að stjórnskipunin eigi að hvíla. Ef ákvarðanir og ábyrgð fylgdust enn að hefði forsetinn viðurkennt að synjun á staðfestingu laga fæli eftir eðli máls í sér andstöðu við ákvörðun Alþingis. Eðlilegt hefði verið að ríkisstjórnin svaraði umsvifalaust með afsögn eða þingrofi. Eftir að dómur þjóðarinnar gekk gegn ríkisstjórninni átti hún að biðjast lausnar. Þá hefði verið rétt af forseta að fela þeim flokkum sem stutt hafa sjónarmið hans, Framsóknarflokknum og Hreyfingunni, að mynda ríkisstjórn. Þjóðin valdi þeirra afstöðu. Það hefði orðið þung þraut fyrir slíka stjórn að lifa með minnihluta í þinginu. Hún hefði þá átt þess kost að rjúfa þing og láta þjóðina ákveða hverjum hún treysti til að framkvæma vilja sinn.Óvirkt kerfi Ríkisstjórnin segist ekki geta farið frá vegna þeirra þungu verkefna sem við blasa. Í engu er ofmælt hversu mikill vandi þjóðinni er á höndum. En sú pólitíska upplausn sem hlýst af því að skilja ábyrgðina frá stjórnskipunarreglunum er til lengri tíma hættulegri en sá skammtíma órói sem fylgir kosningum. Í þessu ljósi eru röksemdir ríkisstjórnarinnar ekki gildar. Sjálfstæðisflokkurinn er að nokkru leyti í sömu stöðu og stjórnarflokkarnir. Hann þarf eins og þeir á endurnýjuðu umboði kjósenda að halda. Vandi hans er hins vegar sá að hann hefur ekki vald til að kalla eftir dómi kjósenda sem hann hefur þó óskað eftir. Gild pólitísk rök voru fyrir vantrausti á stjórnarstefnuna. Það er annað mál. Hitt hefði verið beittara að knýja á um kosningar út frá kenningunni um stjórnskipulega ábyrgð. Ein afleiðing af ábyrgðarleysiskenningu forsetans er sú að héðan í frá er enginn hvati fyrir stjórnarandstöðuflokka að taka sameiginlega ábyrgð með ríkisstjórn á pólitískt erfiðum málum. Þjóðaratkvæði án afleiðinga fyrir þá sem verða undir, hvort sem það er þingið eða forsetinn, leiðir til upplausnar. Traustið hverfur. Án þess virkar stjórnmálakerfið ekki. Við erum á þeirri leið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Kosningabaráttan er kostuð af þér Ragnar Sigurður Kristjánsson Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Af hverju ætti ég að standa með kennurum? Stefán Birgir Jóhannesson Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Dýrkeypt jólagjöf Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Reikningskúnstir Ragnars Þórs Björn Leví Gunnarsson Skoðun Sálfræðiþjónusta: Ég var heppinn að pabbi hafi greinst með krabbamein Davíð Brynjar Sigurjónsson Skoðun
Forsetinn hefur breytt grundvallarþætti í stjórnskipun landsins. Óumdeilt er að afleiðingin af staðfestingarsynjun forseta er þjóðaratkvæði. Áður fyrr var það skilningur bæði stjórnskipunarfræðinga og stjórnmálamanna að það hefði einnig afleiðingar að beita ákvæðinu. Því fylgdi einfaldlega ábyrgð. Annaðhvort viki forsetinn eða ríkisstjórnin eftir því hvorum málsaðila þjóðin treysti. Forsetinn breytti ekki hinni skrifuðu stjórnarskrá. Hann sniðgekk hins vegar hina óskrifuðu reglu um ábyrgð. Umturnun hans á stjórnskipuninni felst í því að aftengja siðferðisgildi sem hún var reist á. Þó að breyting forsetans hafi fyrst og fremst þann tilgang að grafa undan Alþingi hafa allir stjórnmálaflokkarnir fallist á ábyrgðarleysiskenningu hans. Sakir þess situr ríkisstjórn sem tapaði stærsta pólitíska máli sínu í þjóðaratkvæði. Rökin fyrir vantraustinu í vikunni voru ekki þau að stjórnin ætti að taka afleiðingum þess að hafa tapað þjóðaratkvæðinu. Þau lutu fremur að hinu að hún er yfirhöfuð ekki vandanum vaxin. Vantraustið snerist því meir um pólitík en þá siðferðilegu kjölfestu sem áður var einn af hornsteinum stjórnskipunarinnar. Þegar forsetinn og forysta allra stjórnmálaflokka sameinast um að minni pólitísk ábyrgð bæti lýðræðið ætti að vera unnt að ganga út frá því sem vísu að svo sé. Allt er breytingum undirorpið. Ábyrgðarleysiskenningin virðist vera vinsæl hjá almenningi. Eigi að síður er ástæða til að velta því fyrir sér hvort hún er stjórnarbót eða lokleysa. Svívirða þá og nú Í fornöld voru kenningar í Aþenu um að málshefjendur ættu að hafa snöruna um hálsinn meðan þeir töluðu. Býsna harkalegt en sýnir að kenningin um að menn beri ábyrgð á skoðunum sínum á djúpar rætur. Þingvallafundurinn 1873 er þekkt dæmi úr sögu okkar og sýnir meiri hófsemd. Þar varð Jón Sigurðsson undir. Þegar eigi að síður átti að kjósa Jón til að mæla fyrir meirihlutatillögum á konungsfundi lét hann „á sér skilja að það væri að svívirða sig að ætla sér að flytja konungi það erindi sem alveg væri gagnstætt sannfæringu sinni.“ Öfugt við þetta sæmdarviðmið telur ríkisstjórnin að það sé svívirða að ætla henni ekki að flytja það erindi á erlendum vettvangi sem er andstætt sannfæringu hennar. Hér hafa gildi eins og ábyrgð og sæmd algjörlega verið slitin frá stjórnskipunarreglunum eftir kenningu forseta Íslands. Fyrir vikið lítur Alþingi út sem einhvers konar lokleysa. Þó að forsetinn segi að þetta sé lýðræðisleg framför sér þess hvergi stað. Álitaefnið er ekki hvort menn eru með eða á móti ríkisstjórninni heldur hitt á hvaða siðferðilegu stoðum menn telja að stjórnskipunin eigi að hvíla. Ef ákvarðanir og ábyrgð fylgdust enn að hefði forsetinn viðurkennt að synjun á staðfestingu laga fæli eftir eðli máls í sér andstöðu við ákvörðun Alþingis. Eðlilegt hefði verið að ríkisstjórnin svaraði umsvifalaust með afsögn eða þingrofi. Eftir að dómur þjóðarinnar gekk gegn ríkisstjórninni átti hún að biðjast lausnar. Þá hefði verið rétt af forseta að fela þeim flokkum sem stutt hafa sjónarmið hans, Framsóknarflokknum og Hreyfingunni, að mynda ríkisstjórn. Þjóðin valdi þeirra afstöðu. Það hefði orðið þung þraut fyrir slíka stjórn að lifa með minnihluta í þinginu. Hún hefði þá átt þess kost að rjúfa þing og láta þjóðina ákveða hverjum hún treysti til að framkvæma vilja sinn.Óvirkt kerfi Ríkisstjórnin segist ekki geta farið frá vegna þeirra þungu verkefna sem við blasa. Í engu er ofmælt hversu mikill vandi þjóðinni er á höndum. En sú pólitíska upplausn sem hlýst af því að skilja ábyrgðina frá stjórnskipunarreglunum er til lengri tíma hættulegri en sá skammtíma órói sem fylgir kosningum. Í þessu ljósi eru röksemdir ríkisstjórnarinnar ekki gildar. Sjálfstæðisflokkurinn er að nokkru leyti í sömu stöðu og stjórnarflokkarnir. Hann þarf eins og þeir á endurnýjuðu umboði kjósenda að halda. Vandi hans er hins vegar sá að hann hefur ekki vald til að kalla eftir dómi kjósenda sem hann hefur þó óskað eftir. Gild pólitísk rök voru fyrir vantrausti á stjórnarstefnuna. Það er annað mál. Hitt hefði verið beittara að knýja á um kosningar út frá kenningunni um stjórnskipulega ábyrgð. Ein afleiðing af ábyrgðarleysiskenningu forsetans er sú að héðan í frá er enginn hvati fyrir stjórnarandstöðuflokka að taka sameiginlega ábyrgð með ríkisstjórn á pólitískt erfiðum málum. Þjóðaratkvæði án afleiðinga fyrir þá sem verða undir, hvort sem það er þingið eða forsetinn, leiðir til upplausnar. Traustið hverfur. Án þess virkar stjórnmálakerfið ekki. Við erum á þeirri leið.
Sálfræðiþjónusta: Ég var heppinn að pabbi hafi greinst með krabbamein Davíð Brynjar Sigurjónsson Skoðun
Sálfræðiþjónusta: Ég var heppinn að pabbi hafi greinst með krabbamein Davíð Brynjar Sigurjónsson Skoðun