Fastir pennar

Fjörbrot frekjunnar

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
SA vill ráða fjárlögum. SA telur það vera samningsatriði milli atvinnurekenda og ríkisstjórnar hvernig vegagerð skuli háttað í landinu, stóriðju, virkjanaframkvæmdum, en slíkt skuli ekki ákveðið af fulltrúum sem þjóðin hefur valið í kosningum.

ASÍ er að nafninu til með í þessum kjaraviðræðum en varla sem viðsemjandi heldur fremur eins og barn í forræðisdeilu. Eða kannski er ofmælt að tala hér um „samningsatriði". SA vill bara ráða þessu. SA telur að ríkisstjórnin eigi að fara að kröfum sínum um stjórn landsins og hirðir ekkert um lýðræðislegt umboð stjórnarinnar. Talað er um að forsetinn hafi sett stjórnskipan landsins í uppnám og grafið undan þingræðinu með því að vísa Icesave í dóm þjóðarinnar – en hvað má þá segja um það vald sem SA hyggst taka sér yfir því hvernig stjórn landsins skuli háttað?

Framganga SA er vitnisburður um þjóðarböl sem við þurfum kannski að fara að ræða meira um og jafnvel að fara að senda menn í meðferð við: Frekju.

FrekjusamfélagiðFrekjan var helsta hreyfilafl samfélagsins á árunum upp úr aldamótum – og systir hennar græðgin. Frekjan er oflæti á sterum. Frekjan er heimsk. Hún er siðblind. Hún er ábyrgðarlaus. Hún er bernsk. Frekjan umber ekkert og hatar allt. Hún vegsamar vanþekkinguna og sértúlkunina og sannleikshagræðinguna. Hún er alltaf reið. Hún elskar rifrildið. Henni fylgir fullkomið áhugaleysi um aðrar hliðar mála en sína eigin og algjört skeytingarleysi um afleiðingar gjörða sinna. Hún hlustar ekki en talar bara, skynjar ekki en vill bara. Hún horfir ekki en rótast áfram. Hún skilur ekkert, lærir ekkert, en vex bara upp á ný þar sem hún þrífst og þar sem hún er ekki upprætt.

Íslenska bankakerfið dó úr frekju – meðal annars. Það er allt rakið í efnahagslegum og lagalegum þaula í Rannsóknarskýrslunni um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna sem nú er einmitt ársgömul.

Í tilefni af því afmæli datt mér reyndar í hug að stela hugmynd – og létta mér um leið lífið á sunnudagsmorgni – og skrifa pistil undir fyrirsögninni: Lærdómar okkar af Rannsóknarskýrslunni. Og hafa dálkinn auðan.

En þá væri ég að svíkjast um. Og kannski væri það ekki allskostar sanngjarnt. Hugsið ykkur bara: Útgerðarmenn fá ekki lengur allt sem þeir heimta. Friðrik J. Arngrímsson segir að Jóhanna Sigurðardóttir ráði ekki við starfið sitt – sem er alveg dæmigerður talsmáti frekjunnar – og að hægt sé að leysa deiluna á hálftíma. Hann á við þetta: það tekur enga stund að semja við okkur; það þarf bara að fallast á allar kröfur okkar.

Þrátt fyrir allt höfum við nú ríkisstjórn sem ekki tekur með bugti og frukti við fullsömdum frumvörpum um sjávarútvegsmál úr hendi LÍÚ. Kannski að sumir hefðu hugsað fyrir nokkrum árum: Já þetta er satt, það má ekki vera óvissa í greininni. En þeir dagar eru löngu liðnir. Enginn trúir þeim. Útgerðarmenn hafa sjálfir fyrirgert rétti sínum til prívat-aðgangs að auðlindinni. Við höfum séð of mörg dæmi þess að útgerðarmenn hafa tekið fé út úr greininni sjálfir til að koma í skjól í Tortólum heimsins, of mikið af hundakúnstum í bókfærslu, of mikið af ævintýralegum lántökum með veði í kvóta til að fjárfesta í tómri steypu, eins og blasir við hér um allt. Við höfum séð of mörg dæmi þess að útgerðarmönnum þyki sjálfum ekki vænt um atvinnugreinina sína. Við höfum séð of mikið af frekju.

Fram fjáðir menn…Það er við hæfi á ársafmæli Rannsóknarskýrslunnar um aðdraganda og orsakir hrunsins að frekjan minni á sig. Alveg í anda aldamótaáranna að útgerðarmenn hyggist nú taka allt atvinnulíf landsmanna í gíslingu, krefjist þess að ríkið gangi að kröfum um að festa kvótalénskerfið í sessi fyrir stjórnlagaþing, og kenna þá kröfugerð sína við „sátt" og „frið". Svona töluðu þeir alltaf líka í Sovétríkjunum: í öllum ræðum harðstjóranna þar komu ævinlega fyrir orðin mir og drúsba, „friður" og „vinátta". Frekjan snýr ævinlega við merkingu orðanna – hún beitir alltaf orðin siðferðislegri misnotkun.

Til að fá kröfum sínum framgengt um óbreytt fyrirkomulag í sjávarútvegi, svo að þeir megi halda áfram að ausa fé í hver annan og reisa hallir í Konstantínópel og fela peninga á Tortóla, eru útgerðarmenn og sendimenn þeirra reiðubúnir að gera hvað sem er – meira að segja hækka kaupið hjá almenningi, sem sýnir hversu örvæntingarfullir þeir eru.

Þeir eru meira að segja reiðubúnir að láta vini sína hjá ASÍ, Gylfa og félaga, ganga í gegnum þá hroðalegustu þraut sem þeir geta hugsað sér og vita ekkert hvernig þeir eiga að komast í gegnum: að fara í verkfall.






×