Fastir pennar

Kapp með forsjá

Ólafur Stephensen skrifar
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur ákveðið að flytja ekki Landhelgisgæzluna til Suðurnesja að svo stöddu og þar með gengið þvert gegn væntingum heimamanna og rofið þau fyrirheit sem margir töldu að ríkisstjórnin hefði gefið þegar hún fundaði í Reykjanesbæ og lofaði að skoða málið. Þetta er engu að síður rétt ákvörðun.

Eftir að varnarliðið yfirgaf Keflavíkurflugvöll kom hugmyndin um flutning Gæzlunnar fljótlega upp. Réttilega hefur verið bent á að þar sé aðstaða sem gæti hentað stofnuninni ágætlega og nóg sé af höfnum á Suðurnesjum. Þá hafa menn séð möguleika í að Gæzlan yfirtæki verkefni sem Varnarmálastofnun sáluga hafði með höndum.

Þarna var komið prýðilegt mál fyrir kjörna fulltrúa Suðurnesjamanna að taka höndum saman um. Í nóvember lofaði ríkisstjórnin að skoða vandlega kosti þess að flytja Gæzluna og hét því að athuga hagkvæmni flutningsins. Í janúar tóku allir þingmenn Suðurkjördæmis og oddvitar meirihluta og minnihluta bæjarstjórna á Suðurnesjunum sig saman og skoruðu á ríkisstjórnina að klára málið. „Samstaða alþingismanna og sveitarstjórnarmanna þvert á stjórnmálaflokka um flutning Landhelgisgæslunnar gefur væntingar um að ákvörðun um flutning stofnunarinnar til Suðurnesja gangi eftir hið fyrsta,“ sagði í þeirri áskorun.

Í framhaldinu lögðu svo allir þingmenn kjördæmisins fram þingsályktunartillögu, þar sem áskorunin er endurtekin og eingöngu útlistaðir kostirnir við flutning. „Með flutningi Landhelgisgæslunnar á Suðurnes mundi ríkisvaldið sýna í verki stuðning við eflingu atvinnulífs þar auk þess að gera Landhelgisgæsluna að enn öflugri stofnun til hagsbóta fyrir landsmenn alla,“ segir í greinargerð með tillögunni. Þar gleymist þó að spyrja um hugsanlegan kostnað skattgreiðenda af flutningnum.

Þetta er gamla kjördæmapotsaðferðin. Þingmenn kjördæmisins og aðrir sameinast um að þrýsta á framkvæmdarvaldið að taka flotta pólitíska ákvörðun sem aflar atkvæða. Kostnaðinn má reikna út seinna, eða þá búa til bjartsýnar áætlanir sem ekki standast – og of seint er að endurskoða þegar verkið er komið á fleygiferð.

Nú er hins vegar hagkvæmniathugun innanríkisráðuneytisins á flutningi Gæzlunnar lokið, eins og Fréttablaðið sagði frá í gær. Niðurstaðan er sú að bæði sé mjög dýrt að flytja stofnunina til Suðurnesja, kosti um 700 milljónir, og gera megi ráð fyrir að árlegur rekstrarkostnaður hækki um aðra eins upphæð á nýja staðnum.

Kapp er bezt með forsjá. Við núverandi aðstæður, þegar Landhelgisgæzlan er svo fjársvelt að hún getur varla sinnt lágmarksskyldum sínum, er ekkert vit í að henda peningunum í dýra flutninga. Vandi Suðurnesjamanna í atvinnumálum er vissulega alvarlegur, en meira að segja ráðherrar Vinstri grænna eru farnir að átta sig á að það er ekki hlutverk ríkisins að skapa störf á kostnað skattgreiðenda til að leysa úr þeim vanda.

Vonandi er ákvörðun innanríkisráðherra til marks um ný vinnubrögð – eða kannski eigum við bara að þakka fyrir að Ögmundur er ekki þingmaður Suðurkjördæmis.






×