Þjóðiþjóð Pawel Bartoszek skrifar 29. apríl 2011 00:00 Ég hef sjálfur aldrei hitt þjóðina. Það fólk sem það hefur gert hefur sagt mér af henni ýmsar sögur. Margar þeirra sýna þjóðina sem viðkunnanlega veru, tilfinningaríka, sem hagar sér þó rökrétt eftir aðstæðum. Þjóðin er þannig brjáluð út af hruninu og hún treystir ekki stjórnmálamönnum. Það er svo sem skiljanleg afstaða. En þjóðin er líka frjálslynd og vel menntuð, sem fær mig til að halda að mér ætti að líka vel við hana. Ég sjálfur er nefnilega líka frjálslyndur og vel menntaður. Sumir þekkja þjóðina vel. Það gerir Forseti Íslands til dæmis enda kaus hún hann. Hún er, að hans dómi, æðsti löggjafi landsins og hún stóðst prófið í Icesave-atkvæðagreiðslunni. Guði sé lof, ekki myndi ég vilja sjá þjóðina falla á neinu prófi. Já, og meðan um Guð er rætt, þá segja mér margir að þjóðin sé kristin. Raunar er ég það ekki, en þekki þónokkra sem eru það og líkar fínt við þá. Þeir sem til þjóðarinnar þekkja sem segja hana ekki strangtrúaða, svo okkur þjóðinni ætti að koma vel saman. En þrátt fyrir að vera ekki mjög trúrækin þá á hún þó sína kirkju. Það stendur meira að segja í stjórnarskránni. Í ljósi þess hve tíðrætt forsetanum hefur verið um þjóðina þá er það merkileg staðreynd að í stjórnarskránni nú kemur orðið „þjóð“ hvergi fyrir eitt og sér. Það kemur raunar fyrir í samsettu orðunum þjóðkjörinn, þjóðaratkvæðagreiðsla, þjóðskjalasafn, þjóðleg réttindi, þjóðernisuppruni og þjóðkirkja. Þetta seinasta orð, þjóðkirkja, kemur fyrir í einu umdeildasta ákvæði stjórnarskrárinnar. Ákvæðið er ekki umdeilt vegna þess að það hefur neikvæð áhrif á daglegt líf fólks utan þjóðkirkjunnar, því það gerir það ekki, heldur vegna þess að það er skrítið að tilheyra hópi sem lögum samkvæmt er sagður aðhyllast ákveðna trú, ef maður aðhyllist hana ekki sjálfur. Margar stjórnarskrár hafa að geyma þjóðareinkennakafla, til dæmis með ákvæðum um þjóðtungu. Séu slík ákvæði vandlega unnin geta þau verið skaðlaus, en alltaf er sú hætta að þau verði rangtúlkuð og ofnotuð. Verði fjallað um þjóðtungu í stjórnarskrá er bókað mál að hrópað verði „stjórnarskrárbrot“ í hvert skipti sem móðurmálskennsla er skorin niður. Sumar stjórnarskrár hefjast á aðfaraorðum þar sem þjóðir fá að tala. Vel skrifuð aðfaraorð eru skaðlaus en mörg hafa valdið deilum. Ef þjóð er látin tala þá er eins gott að sem flestir sem henni tilheyra geti tekið undir það sem henni er lagt í munn. Þjóð finnst mörgum fallegt orð. Ríki hljómar stofnanalega og þurrt. Þjóðareign hljómar meira spennandi en ríkiseign. „Þjóðnýting“ var hugtak sem búið var til af fólki sem vissi að „rán ríkis á eigum einstaklinga“ væri ekki alveg nógu krúttlegt. Til að árétta þá er ég ekki sérstakur stuðningsmaður kvótakerfisins. En breytingar á því þarfnast ekki stjórnarskrárbreytinga. Breytingarnar þarfnast þingmeirihluta. Leið stjórnarskrárbreytinga og dómsmála er óheppileg leið. Ætli mín stærsta efasemd við þjóðareignarhugtakið sé einmitt það sama og í hugum margra er þess mesti styrkur: það hljómar vel. Það hljómar vel að „allar auðlindir skuli vera í þjóðareigu“. Það hljómar einfaldlega betur en það sem það er: að ríkinu verði með stjórnarskrárbreytingu færðar eignir, að viðbættum óútfylltum tékka á eignaupptökur á því sem stjórnmálamamenn muni telja til auðlinda í framtíðinni. Þau ríki sem við berum okkur saman við tala ekki um þjóðareign á auðlindum. Þau ríki, til dæmis Noregur, leggja í sínum stjórnarskrám mun frekar skyldur á stjórnvöld til að sjá til að náttúruauðlindir séu nýttar á hagkvæman og umhverfisvænan hátt frekar en að árétta að opinberir aðilar eigi þær. Enda hlýtur það í raun að vera aðalatriðið, hvernig gengið er um náttúruna en ekki hver sé kennitala þess sem það gerir. Ég hef hitt fullt af fólki. Ég geri mér grein fyrir að saman myndar margt af þessu fólki þjóð. Þjóð er þannig gott praktískt heiti yfir hóp af fólki. En ég vil stíga varlega til jarðar í því að hlaða á þessa þjóð skoðunum, einkennum og eignum. Þjóðina sjálfa hef ég nefnilega ekki enn þá hitt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pawel Bartoszek Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Ég hef sjálfur aldrei hitt þjóðina. Það fólk sem það hefur gert hefur sagt mér af henni ýmsar sögur. Margar þeirra sýna þjóðina sem viðkunnanlega veru, tilfinningaríka, sem hagar sér þó rökrétt eftir aðstæðum. Þjóðin er þannig brjáluð út af hruninu og hún treystir ekki stjórnmálamönnum. Það er svo sem skiljanleg afstaða. En þjóðin er líka frjálslynd og vel menntuð, sem fær mig til að halda að mér ætti að líka vel við hana. Ég sjálfur er nefnilega líka frjálslyndur og vel menntaður. Sumir þekkja þjóðina vel. Það gerir Forseti Íslands til dæmis enda kaus hún hann. Hún er, að hans dómi, æðsti löggjafi landsins og hún stóðst prófið í Icesave-atkvæðagreiðslunni. Guði sé lof, ekki myndi ég vilja sjá þjóðina falla á neinu prófi. Já, og meðan um Guð er rætt, þá segja mér margir að þjóðin sé kristin. Raunar er ég það ekki, en þekki þónokkra sem eru það og líkar fínt við þá. Þeir sem til þjóðarinnar þekkja sem segja hana ekki strangtrúaða, svo okkur þjóðinni ætti að koma vel saman. En þrátt fyrir að vera ekki mjög trúrækin þá á hún þó sína kirkju. Það stendur meira að segja í stjórnarskránni. Í ljósi þess hve tíðrætt forsetanum hefur verið um þjóðina þá er það merkileg staðreynd að í stjórnarskránni nú kemur orðið „þjóð“ hvergi fyrir eitt og sér. Það kemur raunar fyrir í samsettu orðunum þjóðkjörinn, þjóðaratkvæðagreiðsla, þjóðskjalasafn, þjóðleg réttindi, þjóðernisuppruni og þjóðkirkja. Þetta seinasta orð, þjóðkirkja, kemur fyrir í einu umdeildasta ákvæði stjórnarskrárinnar. Ákvæðið er ekki umdeilt vegna þess að það hefur neikvæð áhrif á daglegt líf fólks utan þjóðkirkjunnar, því það gerir það ekki, heldur vegna þess að það er skrítið að tilheyra hópi sem lögum samkvæmt er sagður aðhyllast ákveðna trú, ef maður aðhyllist hana ekki sjálfur. Margar stjórnarskrár hafa að geyma þjóðareinkennakafla, til dæmis með ákvæðum um þjóðtungu. Séu slík ákvæði vandlega unnin geta þau verið skaðlaus, en alltaf er sú hætta að þau verði rangtúlkuð og ofnotuð. Verði fjallað um þjóðtungu í stjórnarskrá er bókað mál að hrópað verði „stjórnarskrárbrot“ í hvert skipti sem móðurmálskennsla er skorin niður. Sumar stjórnarskrár hefjast á aðfaraorðum þar sem þjóðir fá að tala. Vel skrifuð aðfaraorð eru skaðlaus en mörg hafa valdið deilum. Ef þjóð er látin tala þá er eins gott að sem flestir sem henni tilheyra geti tekið undir það sem henni er lagt í munn. Þjóð finnst mörgum fallegt orð. Ríki hljómar stofnanalega og þurrt. Þjóðareign hljómar meira spennandi en ríkiseign. „Þjóðnýting“ var hugtak sem búið var til af fólki sem vissi að „rán ríkis á eigum einstaklinga“ væri ekki alveg nógu krúttlegt. Til að árétta þá er ég ekki sérstakur stuðningsmaður kvótakerfisins. En breytingar á því þarfnast ekki stjórnarskrárbreytinga. Breytingarnar þarfnast þingmeirihluta. Leið stjórnarskrárbreytinga og dómsmála er óheppileg leið. Ætli mín stærsta efasemd við þjóðareignarhugtakið sé einmitt það sama og í hugum margra er þess mesti styrkur: það hljómar vel. Það hljómar vel að „allar auðlindir skuli vera í þjóðareigu“. Það hljómar einfaldlega betur en það sem það er: að ríkinu verði með stjórnarskrárbreytingu færðar eignir, að viðbættum óútfylltum tékka á eignaupptökur á því sem stjórnmálamamenn muni telja til auðlinda í framtíðinni. Þau ríki sem við berum okkur saman við tala ekki um þjóðareign á auðlindum. Þau ríki, til dæmis Noregur, leggja í sínum stjórnarskrám mun frekar skyldur á stjórnvöld til að sjá til að náttúruauðlindir séu nýttar á hagkvæman og umhverfisvænan hátt frekar en að árétta að opinberir aðilar eigi þær. Enda hlýtur það í raun að vera aðalatriðið, hvernig gengið er um náttúruna en ekki hver sé kennitala þess sem það gerir. Ég hef hitt fullt af fólki. Ég geri mér grein fyrir að saman myndar margt af þessu fólki þjóð. Þjóð er þannig gott praktískt heiti yfir hóp af fólki. En ég vil stíga varlega til jarðar í því að hlaða á þessa þjóð skoðunum, einkennum og eignum. Þjóðina sjálfa hef ég nefnilega ekki enn þá hitt.