Innlent

Öryrkjum fjölgar hægar

Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri TR. Öryrkjum fjölgaði um 200 milli 2009 og 2010. Hefur fjölgað um 400 til 800 á ári um langt skeið. Úrræði hafa tryggt endurhæfingu og virkni. Tryggja verður að ekki verið vikið af þessari braut segir forstjóri TR.
Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri TR. Öryrkjum fjölgaði um 200 milli 2009 og 2010. Hefur fjölgað um 400 til 800 á ári um langt skeið. Úrræði hafa tryggt endurhæfingu og virkni. Tryggja verður að ekki verið vikið af þessari braut segir forstjóri TR.
Öryrkjum fjölgaði mun hægar í fyrra en árin á undan. Þetta er þvert á allar spár um mikla fjölgun öryrkja í kjölfar efnahagshruns og aukins atvinnuleysis. Hlutfallsleg aukning milli áranna 2009 og 2010 var aðeins 1,4 prósent, eða um 200 manns, í stað aukningar um 400 til 800 á ári um langt skeið.

 

Skýringuna er líklegast að finna í aðgerðum stjórnvalda undanfarin ár, að sögn Sigríðar Lillýjar Baldursdóttur, forstjóra Tryggingastofnunar. „Stjórnvöld hafa gripið til margvíslegra úrræða til þess að tryggja betur endurhæfingu og virkni í kjölfar atvinnumissis og heilsubrests. Atvinnuleysisbætur hafa til dæmis verið hækkaðar og fólk getur verið lengur á bótum en áður,“ bendir Sigríður Lillý á.

 

Hún er jafnframt þeirrar skoðunar að Vinnumálastofnun hafi frá bankahruni unnið þrekvirki við að halda uppi virkni atvinnulausra með margvíslegu uppbyggilegu starfi. „Í Tryggingastofnun höfum við svo endurskoðað öll okkar vinnubrögð varðandi endurhæfingarmat, virk endurhæfingarúrræði og örorkumat að fengnum lagabreytingum sem gerðu okkur það kleift.“

 

Sigríður Lillý segir ekkert benda til breytinga á fækkun öryrkja það sem af er þessu ári. „En auðvitað veit maður ekki hvað gerist. Það þarf að fylgjast vel með þessari þróun, ekki bara í örorkumálunum, heldur einnig atvinnulífinu. Það þarf að lesa þetta saman og skoða hvað við höfum gert vel svo að við víkjum ekki út af þessari braut.“

 

Fjöldi öryrkja í desember síðastliðnum var 14.714. Konur voru í meirihluta eða 9.025.

 

Örorkuþegum hefur fjölgað ár hvert en nokkuð mismunandi eftir tímabilum. Fyrri hluta tíunda áratugarins var fjölgunin hvað mest hlutfallslega og náði hámarki 1993 þegar hún var 11,5 prósent milli ára.

 

„Með minnkandi atvinnuleysi hægði nokkuð á þessari þróun þar til 1999 þegar fór í sama farið. Aukningin eftir það var hvað mest fram til ársins 2005,“ greinir Sigríður Lillý frá. - ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×