Lífið

Fjallabræður undirbúa plötu

Fjallabræður eru að undirbúa sína aðra plötu. Tvö ár eru liðin frá þeirri síðustu. Fréttablaðið/GVA
Fjallabræður eru að undirbúa sína aðra plötu. Tvö ár eru liðin frá þeirri síðustu. Fréttablaðið/GVA
Vestfirski stuðkórinn Fjallabræður er að undirbúa nýja plötu sem kemur út fyrir næstu jól ef allt gengur að óskum. Fyrsta plata Fjallabræðra kom út fyrir tveimur árum og hefur hún selst mjög vel, eða í um fimm þúsund eintökum.

Kórinn syngur á þjóðhátíð í Eyjum í annað sinn í röð í sumar en hefur annars hægt um sig. Kórstjórinn Halldór Gunnar Pálsson á góðar minningar frá síðustu þjóðhátíð. „Það var alveg geðveikt. Við vorum í jakkafötunum í átján klukkutíma," segir hann hress.

Stutt er síðan Fjallabræður sungu með Táknmálskórnum á opnunarhátíð Listar án landamæra. „Það var alveg ótrúlega gaman. Maður kann ekkert í táknmáli og er að kynnast þessu í fyrsta skipti. Það var ótrúlega gaman að horfa á lögin sín. Þetta er fallegt tungumál," segir Halldór Gunnar.

Fjallabræður hafa einnig barnakór á sínum snærum og til stendur að taka upp aðra plötu með honum. „Það er ekki verið að stefna á stóra útgáfu á því. Það er bara verið að safna minningum," segir Halldór. Í kórnum eru krakkar á aldrinum fimm til fjórtán ára. „Þetta er breiður hópur, ekki ósvipaður og Fjallabræður með allt frá sjóurum til heilaskurðlækna. Ef við getum látið sjóarann og heilaskurðlækninn vinna saman getum við látið fimm ára krakka og fjórtán ára gera það líka." -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×