Náttvíg eru morðvíg Guðmundur Andri Thorsson skrifar 9. maí 2011 06:00 Egill Skallagrímsson var terroristi. Hann var sjö ára þegar hann drap sinn fyrsta mann. Hann ældi framan í Ármóð nokkurn bónda og krækti síðan augað úr honum og sneið af honum skeggið við hökuna – en þyrmdi lífi hans fyrir orð húsfreyju – þetta var í fylleríi og Ármóður hafði ekki sýnt honum næga virðingu og ekki þóst eiga neitt annað að drekka en skyr – sem hann fékk svo allt framan í sig. Þegar hamurinn rann á Egil átti hann til að bíta menn á barkann í orrustum; hann umturnaðist í einhvers konar bjarndýr; drap nánast hvern þann sem á vegi hans varð; fór um rænandi og ruplandi, brennandi og drepandi. Hann var sérstakur ógnvaldur konungshjónanna norsku: drap vini þeirra og helstu hirðmenn og loks son þeirra Rögnvald áður en hann reisti konungshjónunum níðstöng og hrakti þau af löndum sínum með galdri sínum. Hann hafði auðvitað sínar málsbætur. En hann var terroristi. Saga um okkar dagaOg skáld. Þegar hann álpaðist í gildru Gunnhildar drottningar var hann svo lánsamur að Arinbjörn vinur hans – og eini almennilegi maðurinn í allri Eglu – var með honum og hafði vit og orð fyrir honum. Þetta var um nótt. Gunnhildur vildi náttúrlega strax láta drepa Egil en Arinbjörn vildi meina að hann skyldi vera friðhelgur til morguns: „… því að náttvíg eru morðvíg.“ Á þetta hlutu þau að fallast og því tókst Agli að yrkja sína höfuðlausn um nóttina þar sem hann hlóð konung lofi sem standa myndi um aldur og ævi og var talið þess virði að hann fengi fyrir sinn „hjálma klett“. Eins og aðrar Íslendingasögur er Egils saga um okkar daga. Meira að segja pakk eins og Eiríkur blóðöx og Gunnhildur þurfti að hlíta vissum siðalögmálum þegar kom að aflífun andskota sinna – meira að segja manna á borð við terroristann Egil Skallagrímsson. Náttvíg eru morðvíg, sagði ráðgjafinn vitri, og konungur gat ekki hugsað sér að gerast sekur um slíkt og taldi sig nauðbeygðan til að þyrma varginum til morguns. Fyrir það uppskar konungur ríkulega: hann missti hefndarinnar en hafði í staðinn sæmd af málinu – um alla framtíð: við erum enn að hrósa honum fyrir þetta, enn að lesa Höfuðlausn, fyrsta kvæðið með endarími í norrænum bókmenntum, og fjallar allt um það hvað hann sé æðislegur. Saga um okkar daga. Hversu andstyggilegur og hversu sekur sem andstæðingurinn kann að vera gilda engu að síður ákveðnar reglur um meðferð hans við handtöku: siðareglurnar snúast ekki bara um hrappinn og vernd hans heldur ekki síður um þann sem handsamar og gerir tilkall til að teljast í siðaðra manna tölu. Þegar Bandaríkjamenn skutu Osama bin Laden eins og hund um nótt, vopnlausan, á heimili sínu fyrirgerðu þeir rétti sínum (rétt eina ferðina) til að teljast í hópi siðaðra þjóða; hvað þá að tala og aðhafast í nafni þeirra. NíðingsverkOsama var terroristi. Hann hafði gengist við ábyrgð á mesta níðingsverki sem Bandaríkin hafa orðið fyrir í sögu lands og þjóðar frá því að Evrópumenn háðu gereyðingarstríð sitt á hendur þeim þjóðum sem landið byggðu fyrir og voru kallaðar Indjánar. En okkur hættir til að gleyma því hversu óheyrilegur verknaður það var þegar ráðist var á tvíburaturnana í New York hinn 11. 9. 2001. Það var árás sem hæfði Bandaríkin í hjartastað, varð þrjúþúsund manns að bana, skók íbúa borgarinnar og sópaði burt í eitt skipti fyrir öll þeirri hugmynd Bandaríkjamanna að þeir væru óhultir í eigin ranni. Um árabil hafa Bandaríkjamenn vélað um í ófriðnum fyrir botni Miðjarðarhafs, stutt með ráðum og dáð innflytjendur frá Evrópu sem lögðu undir sig Palestínu og nefndu ríki sitt Ísrael; stutt gjörspillta einræðisherra í arabalöndum sem nú falla af illverkum sínum einn af öðrum í þeirri lýðræðisbylgju sem fer um þessi lönd. Árás al Kaída á hjarta New York færði þann ófrið þeim sem áður höfðu talið sig geta möndlað með hann í hæfilegri fjarlægð. En kannski var ekki síst sláandi við árásina hversu amerísk hún var í eðli sínu – hversu Hollywood-leg hún var í áherslunni á hið sjónræna, sjónarspilið, sjálfa sýninguna; hversu mikið „show“ þessi árás var … En sem sé: þeir ákváðu að láta til skarar skríða og handtaka Ósama. Óneitanlega hvarflar að manni að það hefði þeim verið í lófa lagið að gera fyrr. En þeir tóku hann og skutu hann eins og hund – eða píslarvott eftir því hvernig á það er litið. Hefðu þeir þyrmt honum er ósennilegt að honum hefði auðnast að yrkja sína Höfuðlausn – að koma fram í sjónvarpi og hlaða Obama Bandaríkjaforseta mærðar lofköst þann er lengi stendur óbrotgjarn í bragar túni. Hvað þá að honum hefði tekist – eins og manni skilst á formælendum vígsins – að snúa heimsbyggðinni á sitt band með orðsnilld sinni hefði hann fengið „platform“ eins og það er orðað. Ætli hitt hefði ekki verið sennilegra að við okkur hefði blasað leiðinlegur og bjánalegur maður knúinn áfram af hatri og hleypidómum. En aftur á móti hefði hann getað sagt eitt og annað um tengsl sín við Bandaríkjastjórn sem hann átti upphefð sína fyrst að þakka. Þannig að þeir drápu hann eins og hund um nótt. Náttvíg eru morðvíg. Og hlálegt er það: Osama er nú píslarvottur en Obama fær hlutskipti morðingjans. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Framtíð menntunar er í einkarekstri Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Kennarar: hvernig höldum við þeim við efnið? Davíð Már Sigurðsson Skoðun Af hverju er ekki búið að tryggja raforkuöryggi almennings? Hjálmar Helgi Rögnvaldsson Skoðun Þorpið Alina Vilhjálmsdóttir Skoðun Tjáningarfrelsið, ábyrgð og Snorri Másson Bjarndís Helga Tómasdóttir ,Kári Garðarsson Skoðun Þegar Trölli stal atkvæðum Eyjólfur Ingvi Bjarnason Skoðun Er lítil samkeppni á fjármálamarkaði? Gústaf Steingrímsson Skoðun Hvað er friður? Sigurvin Lárus Jónsson Skoðun Evrópa án utanríkisstefnu í aukahlutverki á ófriðartímum á eigin grund? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Egill Skallagrímsson var terroristi. Hann var sjö ára þegar hann drap sinn fyrsta mann. Hann ældi framan í Ármóð nokkurn bónda og krækti síðan augað úr honum og sneið af honum skeggið við hökuna – en þyrmdi lífi hans fyrir orð húsfreyju – þetta var í fylleríi og Ármóður hafði ekki sýnt honum næga virðingu og ekki þóst eiga neitt annað að drekka en skyr – sem hann fékk svo allt framan í sig. Þegar hamurinn rann á Egil átti hann til að bíta menn á barkann í orrustum; hann umturnaðist í einhvers konar bjarndýr; drap nánast hvern þann sem á vegi hans varð; fór um rænandi og ruplandi, brennandi og drepandi. Hann var sérstakur ógnvaldur konungshjónanna norsku: drap vini þeirra og helstu hirðmenn og loks son þeirra Rögnvald áður en hann reisti konungshjónunum níðstöng og hrakti þau af löndum sínum með galdri sínum. Hann hafði auðvitað sínar málsbætur. En hann var terroristi. Saga um okkar dagaOg skáld. Þegar hann álpaðist í gildru Gunnhildar drottningar var hann svo lánsamur að Arinbjörn vinur hans – og eini almennilegi maðurinn í allri Eglu – var með honum og hafði vit og orð fyrir honum. Þetta var um nótt. Gunnhildur vildi náttúrlega strax láta drepa Egil en Arinbjörn vildi meina að hann skyldi vera friðhelgur til morguns: „… því að náttvíg eru morðvíg.“ Á þetta hlutu þau að fallast og því tókst Agli að yrkja sína höfuðlausn um nóttina þar sem hann hlóð konung lofi sem standa myndi um aldur og ævi og var talið þess virði að hann fengi fyrir sinn „hjálma klett“. Eins og aðrar Íslendingasögur er Egils saga um okkar daga. Meira að segja pakk eins og Eiríkur blóðöx og Gunnhildur þurfti að hlíta vissum siðalögmálum þegar kom að aflífun andskota sinna – meira að segja manna á borð við terroristann Egil Skallagrímsson. Náttvíg eru morðvíg, sagði ráðgjafinn vitri, og konungur gat ekki hugsað sér að gerast sekur um slíkt og taldi sig nauðbeygðan til að þyrma varginum til morguns. Fyrir það uppskar konungur ríkulega: hann missti hefndarinnar en hafði í staðinn sæmd af málinu – um alla framtíð: við erum enn að hrósa honum fyrir þetta, enn að lesa Höfuðlausn, fyrsta kvæðið með endarími í norrænum bókmenntum, og fjallar allt um það hvað hann sé æðislegur. Saga um okkar daga. Hversu andstyggilegur og hversu sekur sem andstæðingurinn kann að vera gilda engu að síður ákveðnar reglur um meðferð hans við handtöku: siðareglurnar snúast ekki bara um hrappinn og vernd hans heldur ekki síður um þann sem handsamar og gerir tilkall til að teljast í siðaðra manna tölu. Þegar Bandaríkjamenn skutu Osama bin Laden eins og hund um nótt, vopnlausan, á heimili sínu fyrirgerðu þeir rétti sínum (rétt eina ferðina) til að teljast í hópi siðaðra þjóða; hvað þá að tala og aðhafast í nafni þeirra. NíðingsverkOsama var terroristi. Hann hafði gengist við ábyrgð á mesta níðingsverki sem Bandaríkin hafa orðið fyrir í sögu lands og þjóðar frá því að Evrópumenn háðu gereyðingarstríð sitt á hendur þeim þjóðum sem landið byggðu fyrir og voru kallaðar Indjánar. En okkur hættir til að gleyma því hversu óheyrilegur verknaður það var þegar ráðist var á tvíburaturnana í New York hinn 11. 9. 2001. Það var árás sem hæfði Bandaríkin í hjartastað, varð þrjúþúsund manns að bana, skók íbúa borgarinnar og sópaði burt í eitt skipti fyrir öll þeirri hugmynd Bandaríkjamanna að þeir væru óhultir í eigin ranni. Um árabil hafa Bandaríkjamenn vélað um í ófriðnum fyrir botni Miðjarðarhafs, stutt með ráðum og dáð innflytjendur frá Evrópu sem lögðu undir sig Palestínu og nefndu ríki sitt Ísrael; stutt gjörspillta einræðisherra í arabalöndum sem nú falla af illverkum sínum einn af öðrum í þeirri lýðræðisbylgju sem fer um þessi lönd. Árás al Kaída á hjarta New York færði þann ófrið þeim sem áður höfðu talið sig geta möndlað með hann í hæfilegri fjarlægð. En kannski var ekki síst sláandi við árásina hversu amerísk hún var í eðli sínu – hversu Hollywood-leg hún var í áherslunni á hið sjónræna, sjónarspilið, sjálfa sýninguna; hversu mikið „show“ þessi árás var … En sem sé: þeir ákváðu að láta til skarar skríða og handtaka Ósama. Óneitanlega hvarflar að manni að það hefði þeim verið í lófa lagið að gera fyrr. En þeir tóku hann og skutu hann eins og hund – eða píslarvott eftir því hvernig á það er litið. Hefðu þeir þyrmt honum er ósennilegt að honum hefði auðnast að yrkja sína Höfuðlausn – að koma fram í sjónvarpi og hlaða Obama Bandaríkjaforseta mærðar lofköst þann er lengi stendur óbrotgjarn í bragar túni. Hvað þá að honum hefði tekist – eins og manni skilst á formælendum vígsins – að snúa heimsbyggðinni á sitt band með orðsnilld sinni hefði hann fengið „platform“ eins og það er orðað. Ætli hitt hefði ekki verið sennilegra að við okkur hefði blasað leiðinlegur og bjánalegur maður knúinn áfram af hatri og hleypidómum. En aftur á móti hefði hann getað sagt eitt og annað um tengsl sín við Bandaríkjastjórn sem hann átti upphefð sína fyrst að þakka. Þannig að þeir drápu hann eins og hund um nótt. Náttvíg eru morðvíg. Og hlálegt er það: Osama er nú píslarvottur en Obama fær hlutskipti morðingjans.
Evrópa án utanríkisstefnu í aukahlutverki á ófriðartímum á eigin grund? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Evrópa án utanríkisstefnu í aukahlutverki á ófriðartímum á eigin grund? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun