Viðskipti innlent

Launakjör ekki verið verri frá 2002

Íslenska gámafélagið og Vinnuföt eru fyrirtæki ársins, samkvæmt niðurstöðum könnunar VR. Þetta er annað árið í röð sem Íslenska gámafélagið ber af í hópi stærri fyrirtækja. Bæði fyrirtækin fengu hæstu einkunn í flokknum Ánægja og stolt.

Niðurstöðurnar voru kynntar við hátíðlega athöfn í gær og tóku forsvarsmenn fyrirtækjanna við viðurkenningum í tilefni af þeim.

Þetta er fimmtánda árið sem VR velur fyrirtæki ársins. Félagsmenn VR, sem eru ríflega tuttugu þúsund talsins, velja þau auk tæplega þrjú þúsund annarra starfsmanna á almennum vinnumarkaði.

Í flokki stærri fyrirtækja er Nýherji hástökkvari ársins. Fyrirtækið er í 17. sæti í ár en var í því 91. í fyrra. Dynjandi er hástökkvarinn í flokki minni fyrirtækja; það fer úr 192. sæti í fyrra í 56. Hæstu einkunn fengu bæði fyrirtækin fyrir sveigjanleika í vinnu.

Í nýútkomnu tölublaði VR-blaðsins kemur fram að einkunnir fyrir þá þætti sem spurt var um í könnun VR hafi ýmist staðið í stað eða lækkað á milli ára. Mest var lækkunin þar sem spurt var um launakjör. Þær einkunnir hafa ekki verið lægri síðan árið 2002.

Einkunn fyrir trúverðugleika stjórnenda lækkar sömuleiðis mikið, að því er segir í blaðinu. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×