Fastir pennar

Hætta að karpa...

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Ég fór að skoða Hörpu. Falleg er hún að utan og glerhjúpurinn á eftir að verða ævintýralegur í síkvikri reykvískri birtunni. Við erum núna fullvissuð um að stuðlabergsformin fyrir utan séu alls alls alls ekki stuðlaberg heldur bara stærðfræði – gullinsniðsstúdía – bara tölur, ekkert annað – og þar að auki sé stuðlabergið ekkert séríslenskt og auk þess ekkert sérstakt…

Sjálfur er ég fallisti í reikningi og ég sá nú ekki betur en að þetta væri eins og stuðlaberg. Ég sá ekki betur en að Harpa sé eins og gamli draumurinn um álfaborgina sem við sjáum líka í Þjóðleikhúsinu og kannski öllum íslenskum viðhafnarbyggingum sem reyna að endurskapa klettinn úr þjóðsögunum sem saklausir smalar voru seiddir inn í af álfasöng. Í íslenskum þjóðsögum er sönglistin alltaf hættuleg og forboðin.

En mér fannst þetta flott. Og mér sýndist að þarna geti átt eftir að koma skemmtilegt torg fyrir framan þar sem trúðar og leikarar fremja sín skrípalæti og spila á hljóðfæri eins og fyrir framan Pompidou-safnið í París. Þetta á eflaust eftir að verða frábært svæði í borginni okkar ef ekki verða reist í kring einhver leiðinda háhýsi með tilheyrandi sviptivindum þarna í kring í stíl við steinarsbragalega martröðina í Skuggahverfinu. Auðvitað átti tónlistarhúsið einmitt að vera þarna. Allt í einu er komin ný vídd í miðbæinn.

Manni leið svolítið eins og í ævintýri frammi fyrir þessu stóra húsi og áður en ég vissi var ég farinn að muldra með sjálfum mér tilbrigði við inngangsþuluna úr ævintýrinu góða um Skilaboðaskjóðuna: Hætta að karpa, inn skal Harpa.

Í röðinniSvo gengum við inn í klettinn, fórum inn og horfðum opinmynnt og eins og fátæk börn á Reykjavík og höfnina gegnum glerið. Allt leit einhvern veginn öðruvísi út en áður. Reykjavík var dálítið falleg út um þessa glugga.

Þarna var venjulega fólkið – þjóðin. Það stóð þarna í löngum röðum fólkið og beið þess að komast inn á kammertónleika og svo var önnur röð enn lengri þar sem fólk beið þess að fá að sjá Eldborg. Þar inni var reyndar ekkert að gerast en fólkinu gafst kostur á að ganga þarna í gegn og skoða. Allir töluðu í lágum hljóðum eins og í dómkirkju í útlöndum; við vorum í senn hátíðleg og alvarleg í bragði – svolítið eins og prúð börn, sem Íslendingar eru nú ekki oft. Fólk benti og horfði, sum settust og horfðu hægt í kringum sig eins og þau vildu treina sér sem lengst upplifunina; flest voru þau með sama svipinn á andlitinu. Það var upphafinn svipur en blandinn alls kyns andstæðum kenndum: feginleika yfir því að salurinn skyldi þrátt fyrir allt vera svo tilkomumikill og fagur – sorg yfir því hversu afkáralega sjálfsmynd allt þetta dæmi vitnaði um á tímabili, andstyggð, efi: hvers konar fólk erum við og hvers konar fólk viljum við vera – hvers konar fólk erum við búin að vera…

Og svo framvegis. Harpa er tákn um svo margt. Það vantaði bara gott tónlistarhús í Reykjavík og allt í einu var búið að stela þeim fallega draumi og húsið orðið hluti af einhverri heimsyfirráðastefnu þáverandi eigenda Landsbankans. Það er auðvelt að sjá Hörpu sem minnisvarða um oflæti og heimskupör ærðrar þjóðar sem bjó ekki við lýðræði og hvað þá þingræði og varla forsetaræði heldur fyrst og fremst verktakaræði – og æði; þar sem allar ákvarðanir fulltrúa heildarinnar snerust um að þjóna hagsmunum verktaka í stóru og smáu, í nafni barna, sjúklinga, neytenda, ungs fólks – og tónlistarmanna.

Með samtakiHitt er líka hægt: að sjá Hörpu sem tákn um það að hægt sé að ljúka verki með samtaki. Í stað þess að láta þessa hrúgu standa eins og voldugan minnisvarða um eigin misheppnun þá er nú risið hús sem augljóslega hefur heppnast. Og er þar með tákn um að eitthvað hafi tekist – að við getum gert eitthvað vel.

Hún er þarna, Harpa og hún á eftir að öðlast sinn sess í þjóðlífinu. Hún á eftir að fá sína áru. Við skulum alltaf muna þá sóun sem húsinu tengist, þá glópsku sem þar stóð til að innleiða, en við getum ekki látið húsið snúast um það, nema þá að við séum mjög þurfi fyrir vort daglega fuss.

Við skulum ekki ímynda okkur að þetta hús eigi eftir að verða gróðafyrirtæki eða standa undir sér. Það er að minnsta kosti ekki málið: Harpa er ekki fyrir verktakana og aurasálirnar, embættismennina eða túristana, heldur fyrir fólkið sem stóð þarna í röðinni til að ganga inn í þennan rauða sal; hún er fyrir tónlistina sem hefur gildi í sjálfri sér og er verðmætari en nokkrir peningar geta nokkru sinni mælt; hún er hér til að næra sálirnar, auðga andann, lyfta geðinu: hætta að karpa – áfram Harpa!






×