Matur

105 réttir úr stofu 105

Margrét Þóra og Andrea.
Margrét Þóra og Andrea. Fréttablaðið/Valli

„Það besta við starfið er að finna þakklæti nemendanna auk þess sem eintóm gleði umlykur fólkið hér í Listaháskólanum," segir Margrét Þóra Þorláksdóttir sem ásamt Andreu Guðmundsdóttur rekur mötuneyti í Listaháskóla Íslands. Nýlega var gefin út matreiðslubókin Hundrað og fimm með 105 uppskriftum úr þeirra fórum en mötuneytið reka þær einmitt í stofu 105.

„Nemendur og starfsfólk skólans var oft að koma að máli við okkur og biðja um uppskriftir að hinu og þessu og hvetja okkur til að gefa út bók. Svo fannst okkur að slík bók gæti verið upplagt lokaverkefni nemanda í grafískri hönnun með áhuga á ljósmyndun," upplýsir Margrét en ritstjóri, hönnuður, umbrotsmaður og ljósmyndari bókarinnar er Rut Ingólfsdóttir.

Bókinni er skipt eftir virkum vikudögum. Í mánudagskaflanum eru súpur, síðan koma koll af kolli grænmetisréttir, kjötréttir, sjávarréttir og síðan ýmislegt gott í föstudagskaflanum.

„Við ákváðum strax í upphafi að bjóða upp á hollan og heimilislegan mat sem eldaður væri frá grunni," segir Margrét en þegar þær Andrea tóku við mötuneytinu fyrir um fjórum árum hafði ekki verið slíkt í skólanum í nokkur ár. Þeim vinkonum var afskaplega vel tekið og hefur hróður þeirra borist víða.

„Það er alltaf að fjölga hjá okkur en í hádeginu á degi hverjum koma til okkar í kringum 50 til 70 manns," segir Margrét og tekur fram að bókin fáist í Eymundsson og víðar.

solveig@frettabladid.is

Barbecue-kjúklingasalat

Réttur 102 í bókinni

4 kjúklingabringur, skornar í litla bita

salt og pipar

1 dl barbecuesósa

Steikið kjúklingabitana og kryddið. Hellið sósunni út á pönnuna og látið malla í smástund eða þar til gegnumsteikt. Kælið.

Salat


blandað salat

rauðlaukur

tómatar

papríka

vínber, skorin í tvennt

fetaostur

Blandið öllu í skál eða fat og setjið kjúklinginn saman við. Berið fram með tortillaflögum.








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.