Innlent

Atvinnuleysið mælist mest í Efra-Breiðholti

félagsmál Afgerandi munur er á hlutfalli atvinnulausra milli einstakra íbúðarhverfa í Reykjavík. Það er hæst tæp þrettán prósent í Efra-Breiðholti en sex prósent í Kringluhverfinu.

Þetta kemur fram í minnisblaði Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem lagt hefur verið fyrir borgarráð. Atvinnuleysistölur í Reykjavík sýna að í mars voru 12,8 prósent íbúa í póstnúmeri 111 í Breiðholti (Fell, Berg og Hólar), án vinnu. Í hverfinu búa 8.500 manns samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, svo á bak við prósentutöluna eru 1.100 manns. Má því ætla að einn af hverjum fjórum vinnufærum íbúum hverfisins séu atvinnulausir. Til samanburðar er atvinnuleysi 9,5 prósent í Neðra-Breiðholti (Bakkar, Stekkir, Mjódd og Seljahverfi). Í mars voru 6.243 atvinnulausir í Reykjavík.

Stella Víðisdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, segir skiptingu á milli þjóðfélagshópa ekki hafa verið greinda sérstaklega í samhengi við atvinnuleysistölur úr einstökum hverfum borgarinnar. Hún segir jafnframt að aðrar upplýsingar um félagslegan vanda, til dæmis frá Barnavernd Reykjavíkur, tilvísanir úr skólum og fleira, séu ekki endilega hærri þar sem atvinnuleysi greinist mest. „En við höfum áhyggjur af háum tölum í einstökum hverfum. Vandinn er vissulega mismikill og borgin hefur beint sértækum úrræðum að þessum hverfum."

Stella segir aðspurð að það liggi fyrir að hlutfall útlendinga sé hátt í Breiðholti, og sérstaklega í Efra-Breiðholti, sem hugsanlega sé hluti skýringarinnar.

Áætlun Vinnumálastofnunar um fjölda á vinnumarkaði sýnir að 13,5 prósent útlendinga voru án atvinnu í mars en rúm sex prósent Íslendinga.- shá, gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×