Innlent

Mælt fyrir smærra kvótafrumvarpinu

Búist er við miklum umræðum um frumvörpin. Afgreiðsla þeirra gæti því tekið töluverðan tíma. Fréttablaðið/gva
Búist er við miklum umræðum um frumvörpin. Afgreiðsla þeirra gæti því tekið töluverðan tíma. Fréttablaðið/gva
Bæði kvótafrumvörp ríkisstjórnarinnar hafa verið sett á dagskrá Alþingis. Það sama gildir um kvótafrumvarp Hreyfingarinnar. Þetta varð niðurstaðan af fundi forseta Alþingis með formönnum þingflokka síðdegis í gær.

Smærra stjórnarfrumvarpið, sem kveður á um breytingar á núgildandi fiskveiðilöggjöf – hækkun veiðigjalds, strandveiðar og fleira – er fyrst á dagskránni. Mælt verður fyrir því á morgun, að því gefnu að samþykki fáist fyrir afbrigðum vegna þess að málið er það seint fram komið. Búist er við miklum umræðum um frumvarpið áður en það verður afgreitt til nefndar og því verður líklega ekki mælt fyrir hinum frumvörpunum fyrr en síðar í vikunni.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins leggja stjórnarliðar mikla áherslu á að afgreiða smærra frumvarpið sem lög í sumar, áður en nýtt fiskveiðiár hefst í september. Stefnt er að því að koma því stærra, sem snýst um grundvallarkerfisbreytingar, í umsagnarferli fyrir sumarfrí.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segir að enn standi yfir samningaviðræður um það hvernig þinghaldinu verði hagað fram að 9. júní, en þá á þingi að ljúka samkvæmt starfsáætlun. Forsætisráðherra hefur sagt að hann telji jafnvel þörf á sumarþingi ef ekki takist að afgreiða stjórnarfrumvörpin fyrir þinglok, en Ásta segir hins vegar að það sé stefna þingforseta að halda starfsáætlun. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×