Innlent

Kefluðu mann og rændu hann

Ofbeldismennirnir bundu hendur fórnarlambsins. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Ofbeldismennirnir bundu hendur fórnarlambsins. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í átján mánaða fangelsi, meðal annars fyrir rán og frelsissviptingu. Þá var hann dæmdur til að greiða fórnarlambinu 450 þúsund krónur í miskabætur.

Ofbeldismaðurinn neyddi fórnarlambið, í félagi við tvo aðra menn, með ofbeldi til að millifæra 110 þúsund krónur yfir á reikning eins þeirra. Að auki söfnuðu ránsmennirnir verðmætum í íbúðinni, þar á meðal 80 þúsund krónum í peningum. Mál þess sem nú var dæmdur var skilið frá málum hinna tveggja og dæmt sérstaklega.

Þremenningarnir sviptu manninn frelsi á heimili hans við Hringbraut í Reykjavík í desember 2009. Þeir beittu hann ofbeldi í því skyni að ná frá honum verðmætum, slógu hann í andlitið, tóku hann hálstaki, fjötruðu hendur hans og tróðu tusku upp í munn hans og kefluðu hann.

Sá sem nú var dæmdur játaði sök fyrir dómi. Hann var jafnframt fundinn sekur um að hafa tekið bíl í heimildarleysi og sett á hann skráningarmerki, sem hann stal af öðrum bíl.

Maðurinn á langan sakaferil og hefur meðal annars hlotið fimmtán refsidóma. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×