Innlent

Ungmenni ánægð með íslenska skóla

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra
Nær öll íslensk ungmenni, eða 90 prósent, telja að háskólanám hér á landi sé góður kostur. Af ungmennum í 31 Evrópulandi er hlutfallið einungis hærra hjá þeim dönsku sem telja að háskólanám þar í landi sé aðlaðandi kostur, eða 91 prósent. Þetta kemur fram í nýrri könnun, Flash Eurobarometer on Youth, sem gerð var fyrir Evrópusambandið (ESB) í janúar síðastliðnum.

Hlutfallið var lægst á Ítalíu og Litháen, en um 57 prósent ungs fólks í þessum löndum telja háskólana þar góða. ESB-meðaltalið var 76 prósent.

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir niðurstöðurnar ekki

koma á óvart. „Þetta er í takti við þær rannsóknir sem gerðar hafa verið hér á landi á viðhorfi íslenskra ungmenna til skólastarfs almennt,“ segir Katrín. „Þessi rannsókn staðfestir þær vísbendingar að Íslendingar treysti skólakerfinu.“

Flestir sögðust sækja háskólanám til þess að fá betri atvinnutækifæri eða fá hærri laun eða vegna þess að þeir hefðu mikinn áhuga á ákveðnu efni. „Íslensk ungmenni eru mjög meðvituð um laun,“ segir Katrín. „Þau hafa til að mynda meiri áhyggjur af því að hafa lág laun í framtíðinni heldur en nágrannaþjóðirnar.“

Afar fáir sögðust stunda háskólanám til þess að bæta stöðu sína á vinnumarkaði með því að fara upp um hæfnisþrep. Þar var hlutfallið lægst meðal Íslendinga og Norðmanna. Afar hátt hlutfall þýskra ungmenna segist sækja háskóla til þess að auka hæfni sína á vinnumarkaðnum.

Katrín segir umræðuna um hæfnisþrepin ekki hafa verið ríkjandi hér á landi, hvorki á vinnumarkaði né meðal launþega. Það gæti meðal annars skýrst af góðu atvinnuástandi hér á landi lengst af.

Þá voru einnig afar fáir sem sögðust leggja stund á háskólanám til að auka tækifæri sín til þess að stofna eigið fyrirtæki. Þar voru Norðurlöndin fimm með lægst hlutfall en hæst var það í Rúmeníu.

Katrín segir þetta sennilega skýrast af því að hér á landi, sem og á Norðurlöndunum, geti verið meiri áhersla á önnur atvinnutækifæri heldur en að beina fólki í þá átt að skapa þau sjálf. „Þetta gæti vissulega verið vísbending fyrir atvinnulífið í landinu,“ segir mennta- og menningarmálaráðherra.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×