Innlent

Skorað á ESB að endurskoða sölubann afurða

Bann ESB við innflutningi beinist gegn veiðiaðferðum Kanadamanna. nordicphotos/afp
Bann ESB við innflutningi beinist gegn veiðiaðferðum Kanadamanna. nordicphotos/afp
Vestnorræna ráðið skorar á Evrópusambandið að endurskoða bann sitt við innflutningi selafurða til sambandsins. Bannið hefur nú þegar haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir fjölskyldur veiðimanna og smærri byggðir veiðimanna á Grænlandi.

Þetta kom fram á þriðja sameiginlega fundi forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og þingnefndar Evrópuþingsins sem haldinn var nýlega í Nuuk á Grænlandi. Nefndirnar funda árlega til að ræða sameiginleg hagsmunamál en Ólína Þorvarðardóttir er forseti Vestnorræna ráðsins. „Ég stóðst ekki mátið að minna á tvískinnunginn í þessu máli öllu,“ segir Ólína.

„Við vitum að búpeningur sætir sums staðar afar illri meðferð í Evrópu. Við þekkjum hörmulegar frásagnir og fréttamyndir af meðferð dýra í verksmiðjubúum víða í álfunni. Það er því hálf ömurlegt að almenningur sem neytir þessara afurða með bestu lyst skuli snúast gegn sjálfbærri nýtingu fámennra veiðisamfélaga á lifandi auðlindum á borð við sel og hval.“

Evrópuþingnefndin upplýsti að banninu væri fyrst og fremst ætlað að vinna gegn ákveðnum veiðiaðferðum í Kanada og ekki hefði verið ætlunin að stuðla að söluhruni á grænlenskum selskinnum.

Nefndin lýsti yfir vilja til þess að taka málið upp á vettvangi Evrópuþingsins á næstunni.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×