Innlent

Kallar eftir harðara eftirliti

Velferðarráðherra boðar aðgerðir til að herða á eftirliti með ávísunum lyfseðilsskyldra lyfja. Fréttablaðið/HAri
Velferðarráðherra boðar aðgerðir til að herða á eftirliti með ávísunum lyfseðilsskyldra lyfja. Fréttablaðið/HAri
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir nauðsynlegt að læknar geti sótt upplýsingar úr lyfjagagnagrunni til að sporna gegn misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja og hyggst funda um efnið með fulltrúum frá Persónuvernd í dag. Guðbjartur átti fund með Landlækni og Barnaverndarstofu í gær og var þar farið yfir næstu skref í málinu.

 

„Við fórum yfir þá ferla sem eru í kringum lyfjaávísanir og vorum sammála um að herða þurfi á eftirfylgni þar," sagði Guðbjartur í samtali við Fréttablaðið.

Mikil umræða hefur spunnist um misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja hér á landi í kjölfar umfjöllunar Jóhannesar Kr. Kristjánssonar í Kastljósi á RÚV.

 

Þar var varpað ljósi á hið mikla magn af læknalyfjum sem gengur kaupum og sölum í undirheimum, en dæmi var um einstakling sem fékk 24.000 töflur áskrifaðar í gegnum lækni á þriggja ára tímabili. Guðbjartur segir lykilatriði að hægt sé að fylgjast með ávísunum í gegnum lyfjagagnagrunn. „Við þurfum að tryggja að við getum fylgst með því hverjir eru að fá lyf og hvaða læknar séu að gefa út of mikið af lyfjum."

 

Til þess segir Guðbjartur að þurfi að opna aðgengi lækna að gagnagrunni svo þeir geti gengið úr skugga um hvort sjúklingur hafi fengið ávísað hjá öðrum lækni skömmu áður. „Ég mun ræða þetta við Persónuvernd [í dag], en markmiðið er að hægt sé að fylgjast með þessu í rauntíma og við munum vinna að því að það sé hægt. Til þess er gagnagrunnurinn settur upp."

 

Á fundi ráðherra með Landlækni og Barnaverndarstofu var einnig rætt um lausnir í meðferðarúrræðum fyrir unglinga sem ánetjast fíkniefnum. „Þar kom fram styrkja þarf neyðarvistun og fyrstu viðbrögð til að hægt sé að grípa strax inn í þurfi að gera eitthvað strax."

 

Guðbjartur sagði að í ljósi umræðunnar sem skapast hafi um misnotkun á læknalyfjum sé nú lag til að vinna í þessum málum af krafti.

 

„Við þurfum alltaf að vera á vaktinni, en ég held að þetta sé ágætis tækifæri fyrir okkur að fara yfir alla ferla. Skoða hvað við erum að gera vel og hvað má betur fara. Nú eru allir tilbúnir til að fara í þessa umræðu."

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×