Innlent

Boðar átak gegn notkun munntóbaks

Viðar Jensson. Landlæknisembættið notar Dag án tóbaks til að berjast gegn aukinni notkun munntóbaks. Fimmtungur karla 16 til 23 ára notar munntóbak. Það getur valdið krabbameini og er tengt öðrum sjúkdómum.
Viðar Jensson. Landlæknisembættið notar Dag án tóbaks til að berjast gegn aukinni notkun munntóbaks. Fimmtungur karla 16 til 23 ára notar munntóbak. Það getur valdið krabbameini og er tengt öðrum sjúkdómum.
Í það minnsta 28 krabbameinsvaldandi efni hafa fundist í munntóbaki, auk þess sem notkun þess er tengd hjartasjúkdómum og sykursýki. Landlæknisembættið ætlar að beina sjónum sínum sérstaklega að sívaxandi munntóbaksnotkun hér á landi á alþjóðlegum Degi án tóbaks í dag.

 

„Við sjáum að ungt fólk er að leita í munntóbak og það er einkum vegna fyrirmynda og hópþrýstings sem það byrjar," segir Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Landlæknisembættinu. Embættið ætlar í skipulagt átak gegn munntóbaksnotkun á næstunni.

 

Forvarnir gegn reykingum hafa borið umtalsverðan árangur, sem sést best á því að daglegar reykingar fullorðinna mælast hvað minnstar hér á landi af öllum Evrópuríkjum. Samkvæmt mælingum á síðasta ári hafði hlutfall reykingamanna dregist saman um rúman helming frá árinu 1991, frá tæpum þrjátíu prósentum niður í fjórtán.

 

Munntóbaksnotkun hefur hins vegar verið í hröðum vexti, sérstaklega meðal ungra karla þar sem mælingar Lýðheilsustöðvar síðustu tvö ár leiddu í ljós að um fimmtungur karlmanna á aldrinum 16 til 23 ára sagðist nota munntóbak.

Þýsk rannsókn leiðir í ljós skaðsemi munntóbaks. Notkun þess hefur stóraukist, sérstaklega meðal ungra karla.Fréttablaðið/GVA
Viðar Jensson, verkefnastjóri tóbaksvarna hjá Landlæknisembættinu, segir í samtali við Fréttablaðið að þetta sé óheillaþróun. Hann segir málið grafalvarlegt þar sem sannað þyki að munntóbak sé ekki síður ávanabindandi en reykingar og jafnvel enn frekar. Hann vísar þar í skýrslu sem þýska krabbameinsrannsóknarmiðstöðin í Heidelberg gaf nýlega út, en þar segir jafnframt að munntóbaksnotkun feli í sér alvarlega hættu á heilsubresti, jafnvel krabbameini.

 

Skýrslan segir að í munntóbaki hafi fundist í kringum 28 efni sem geti orsakað krabbamein, meðal annars í brisi, munni og vélinda. Þá bendi sumar rannsóknir til þess að munntóbaksnotkun tengist meðal annars hjartasjúkdómum og sykursýki.

Viðar segir skýrsluna endanlega afsanna þá þrautseigu bábilju að munntóbak sé skaðlaust. Hann er þó bjartsýnn á að úr muni rætast. „Ég bind miklar vonir við það að með samtakamætti allra sem að málunum koma sé hægt að draga úr neyslu."

 

Nokkur vitundarvakning hefur þó verið varðandi neikvæðar afleiðingar munntóbaksneyslu þar sem Skautafélagið Björninn í Reykjavík bannaði nýverið notkun tóbaks á æfingu og leikjum liðsins.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×