Innlent

Sjónvarpsútsendingum á Íslandi umbylt

Ríkissjónvarpið Kröfur um háskerpu- og þrívíddarsjónvarp og gagnvirkni hafa þrýst á um uppfærslu á dreifikerfi RÚV.
FréttablaðiÐ/GVA
Ríkissjónvarpið Kröfur um háskerpu- og þrívíddarsjónvarp og gagnvirkni hafa þrýst á um uppfærslu á dreifikerfi RÚV. FréttablaðiÐ/GVA
Miklar breytingar verða á fyrirkomulagi sjónvarpsútsendinga á Íslandi á næstu misserum. Stefnt er að því að hliðrænum sjónvarpsútsendingum verði hætt í lok næsta árs.

Sjónvarpsútsendingar munu í kjölfarið ekki nást í gegnum gamla góða loftnetið heldur þarf að koma sér upp örbylgjuloftneti eða fá útsendingar sendar í gegnum ljósleiðara. Þá verður stafrænt sjónvarpstæki eða sérstakt rafrænt viðtökubox nauðsynlegt til að ná útsendingum.

Nýverið var breiðbandsútsendingum Símans hætt og þar með eru fjögur dreifikerfi á sjónvarpsútsendingum eftir á markaðnum. RÚV sendir hliðrænt sjónvarp út í gegnum loftnet en það gerir Vodafone líka. Þá býður Vodafone einnig upp á stafrænt sjónvarp í gegnum örbylgjuloftnet og netsjónvarp í gegnum ljósleiðara. Síminn býður núna einungis upp á netsjónvarp sem er kallað ljósnet. Er sjónvarpsútsendingum og interneti dreift saman í gegnum ljósnetið, sem býður upp á mun meira gagnamagn en áður hefur verið í boði. Til að ná útsendingum Símans og Vodafone þarf að kaupa myndlykil af fyrirtækjunum.

Hliðrænar sjónvarpsútsendingar hafa þegar verið lagðar niður í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, auk þess sem Evrópusambandið hefur sett markmið um að stafræn dreifing taki við af hliðrænni í aðildarríkjum sambandsins í árslok 2012.

Ekki liggur enn fyrir hvernig dreifingu RÚV verður háttað þegar hliðrænum sjónvarpsútsendingum verður hætt en að sögn Kristjáns Benediktssonar, starfsmanns við dreifikerfi RÚV, er allt enn opið í þeim efnum. Ljóst sé hins vegar að allir muni þurfa að koma sér upp stafrænu sjónvarpsviðtæki, annað hvort nýju sjónvarpstæki með innbyggðu stafrænu viðtæki, eða sérstöku stafrænu viðtökuboxi sem tengt sé milli loftnets og sjónvarps.

magnusl@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×