Innlent

Hernaður ekki á fjárlögum ESB

Evrópuþingið fundar í Strassborg
Evrópuþingið fundar í Strassborg Mynd/Nordicphotos/afp
Rekstur hernaðarlegra verkefna fellur ekki undir fjárlög ESB og ríki geta kosið að standa utan framlaga vegna einstakra verkefna, segir í nýlegri fundafrásögn samninganefndar Íslands (29. fundur) vegna aðildarviðræðna Íslands og ESB.

Þar segir að formaður samningahóps um utanríkisviðskipti, utanríkis-, öryggis- og varnarmál ætli að lýsa því yfir á rýnifundi að Ísland fallist á regluverk og samninga ESB á þeim sviðum sem falla undir þau mál. Þetta verði gert að fenginni sérstakri ósk um að Ísland lýsi afstöðu sinni til regluverksins, af hendi framkvæmdastjórnar ESB.

Téð yfirlýsing verður þó með „fyrirvara um sérstöðu Íslands hvað varðar tiltekin mál á sviði utanríkis-, öryggis- og varnarmála og með fyrirvara um að ræða þurfi lausnir hvað varðar afmörkuð atriði sem fulltrúar Íslands hafi gert grein fyrir í fyrirlestrum sínum.“

Einnig kemur fram í skjalinu, sem nálgast má á vef utanríkisráðuneytisins, að umræddur samningahópur sé að leggja lokahönd á gagnagrunn sem mun kortleggja alla alþjóðlega samninga sem Ísland er aðili að. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×