Innlent

Ísland 83 prósent sammála Evrópu

Sameiginleg öryggis- og varnarmálastefna ESB gengur aldrei framar stefnu hvers einstaks aðildarríkis og ekki er gert ráð fyrir sameiginlegum her né herskyldu af neinu tagi, segir í fundafrásögn utanríkisráðuneytis. Mynd/landhelgisgæslan
Sameiginleg öryggis- og varnarmálastefna ESB gengur aldrei framar stefnu hvers einstaks aðildarríkis og ekki er gert ráð fyrir sameiginlegum her né herskyldu af neinu tagi, segir í fundafrásögn utanríkisráðuneytis. Mynd/landhelgisgæslan
Ísland tók undir 83 prósent af yfirlýsingum ráðherraráðs ESB um afstöðu sambandsins til mála víðs vegar um heiminn í fyrra, að því er fram kemur í 28. fundafrásögn samninganefndar Íslands gagnvart ESB.

Fundafrásagnir þessar eru birtar á vef utanríkisráðuneytisins og fjalla um þau atriði sem samið skal um í aðildarviðræðunum.

Í téðri frásögn, um utanríkis-, öryggis- og varnarmál, segir að afar lítil þörf sé á laga- eða kerfis-breytingum í þeim málum, komi til aðildar að ESB. Stefna Íslands sé enda „í aðalatriðum sambærileg stefnu ESB.“

Hins vegar myndi Ísland öðlast við aðild „aðgang að ákvarðanatöku og stefnumótun í málaflokknum,“ segir þar. Því þyrfti að taka þátt í ýmsu nefndastarfi og má gera ráð fyrir að það útheimti fleira starfsfólk.

„Aðild að ESB er ekki talin hafa áhrif á grundvallarsamninga Íslands við önnur ríki á sviði öryggis- og varnarmála,“ segir þar. Farið er yfir áherslur Alþingis um að Ísland verði áfram „herlaust land og friðsamt“. Einnig að Ísland eigi ekki að taka þátt í Evrópsku varnarmálastofnuninni.

Markmið friðargæsluverkefna ESB sé að styðja við ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Almennt falli þau vel að stefnu Íslands og kostnaður við þau sé valfrjáls.

Utanríkis- og öryggisákvarðanir ESB þarf að taka einróma og „því er ekki mögulegt að hefja verkefni á vegum ESB án samþykkis allra aðildarríkja,“ segir í frásögninni.

Minnt er á áhættumatsskýrslu fyrir Ísland frá 2009 þar sem segir að styrkja beri samstarf við ESB vegna skipulagðrar glæpastarfsemi, farsótta, náttúruhamfara og þess háttar.

ESB-ríki eru skuldbundin til að standa saman og veita sameiginlega aðstoð ef eitt ríkið verður fyrir hryðjuverkaárás, innrás eða náttúruhamförum.klemens@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×