Innlent

Prestur skrifaði til varnar barnaníðingi

Séra Örn var sóknarprestur í Mývatnssveit en hafði hætt störfum þegar hann skrifaði bréfið til félagsmálayfirvalda.
Séra Örn var sóknarprestur í Mývatnssveit en hafði hætt störfum þegar hann skrifaði bréfið til félagsmálayfirvalda. Fréttablaðið/GVA
Séra Örn Friðriksson, fyrrverandi sóknarprestur Mývetninga, skrifaði félagsmálayfirvöldum bréf í september árið 1998 til varnar dæmdum kynferðisbrotamanni. Maðurinn hafði misnotað stjúpdætur sínar kynferðislega um langt skeið og var dæmdur í tveggja ára fangelsi í júní árið 1995. Hann afplánaði fangelsisdóminn á Kvíabryggju og var sleppt einu og hálfu ári síðar.

Maðurinn, sem ólst upp í sókn prestsins í Mývatnssveit, átti tvær dætur með eiginkonu sinni fyrrverandi. Fór hún fram á að félagsmálayfirvöld ábyrgðust umgengni hans við börnin þeirra eftir að hann losnaði úr fangelsi. Af því tilefni skrifaði séra Örn yfirvöldum bréf þar sem hann sagði meðal annars að maðurinn væri „myndarlegur maður og vel gefinn". Þá skrifaði Örn að sér væri ljóst að það sem olli hjónaskilnaði mannsins og konu hans hefði ekki verið „meint misnotkun hans á dætrum hennar." Hann sakaði konuna um rógburð og lygi og sagði að dómurinn yfir manninum hafi verið hæpinn. Hún hefði ákveðið „að reyna að fá hann dæmdan."

Þá skrifar séra Örn: „Hverjir svo sem gallar [mannsins] kunna að vera, verður það ekki af honum skafið að hann er einstaklega ljúfur og góður piltur. Honum þykir afarvænt um dætur sínar."

Móðir stúlknanna sendi bréf Arnar til siðanefndar Prestafélagsins. Nefndin áleit skrifin ámælisverð og sagði í umsögn, dagsettri 30. september 1999, að bréf Arnar hefði í heild sinni ómálefnalegt yfirbragð. „Órökstuddar fullyrðingar í svona viðkvæmum málum eru ámælisverðar og ættu aldrei að vera lagðar fram sem umsögn í jafnviðkvæmum málum eins og þessum."

Þá var það samdóma álit nefndarinnar að með óvarkárum og órökstuddum málflutningi hefði séra Örn brotið siðareglur. Afrit af álitinu var sent Karli Sigurbjörnssyni biskupi, Geir Waage, formanni Prestafélagsins, og Erni sjálfum. Ekkert var þó frekar að gert, enda var séra Örn hættur störfum. Siðanefndin taldi þó að hann félli áfram undir siðareglur Prestafélagsins.

sunna@frettabladid.is

Í Fréttablaðinu í dag var ranglega sagt að maðurinn hafi gegnt stöðu skólastjóra í Mývatnssveit. Beðist er afsökunar á þessum mistökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×