Innlent

Launabætur hverfa í dýrtíð

Mynd/Pjetur
Tólf mánaða verðbólga verður 5,2 prósent í september og ársfjórðungsverðbólga gæti farið í 6 prósent, gangi spá greiningardeildar Arionbanka eftir. Það þýðir að launahækkanir nýsamþykktra kjarasamninga munu hverfa.

Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hagdeildar ASÍ, segir að horfur hafi versnað síðan kjarasamningar voru gerðir. Krónan hafi veikst sem setji aukinn þrýsting á verðlag. Þá sé heimsmarkaðsverð á hrávöru og matvælum mjög hátt. „Hér innanlands virðast ýmsir aðilar ætla að verða snöggir til og henda þessu út í verðlagið."

Verðlagsnefnd búvara tilkynnti á miðvikudag um 4,4 prósent hækkun á verði mjólkurlítra og 6,7 prósent hækkun á smjöri. Finnur Árnason, forstjóri Haga, gagnrýnir þessa ákvörðun og segir hækkunina langt umfram það sem forsendur kjarasamninga gefi tilefni til. Hann óttast að það stefni í auknar hækkanir verðlags þar sem fyrirtæki hafi lítið svigrúm til þess að taka á sig hækkanir og verði að ýta þeim út í verðlag.

„Þessar hækkanir eru langt umfram það sem væntingar voru um í vetur og það hefur afleiðingar á forsendur kjarasamninga."

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arionbanka, segir deildina spá því að aukinn kostnaður vegna launahækkana fari út í verðlag. Þá hafi veiking krónunnar og hækkun hrávöruverðs slæm áhrif og verðbólgu sé að vænta. „Það er slaki í hagkerfinu og ekki von á eftirspurnardrifinni verðbólgu heldur skýrist hún einungis af kostnaðarhækkunum."

Ólafur Darri segir nýafstaðna samninga hafa átt að vera fyrsta skref til að vinna til baka þá kaupmáttarskerðingu sem launafólk hefur orðið fyrir frá því að hrunið varð. „Það segir sig sjálft að eftir því sem verðbólgan eykst er verið að höggva í kaupmáttinn."

Endurskoðun kjarasamninga fer fram í janúar.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×