Innlent

Nefndin svipuð og hjá þjóðkirkjunni

Róbert Spanó
Róbert Spanó
Biskup kaþólsku kirkjunnar, Pétur Bürcher, hefur leitað til Róberts R. Spanó lagaprófessors, sem var í forsvari fyrir rannsóknarnefnd kirkjuþings, og beðið hann um að velja fulltrúa í óháða rannsóknarnefnd fyrir kaþólsku kirkjuna.

Róbert tekur ekki sjálfur sæti í nefndinni en setur henni starfsreglur og markmið. Hann telur líklegt að nefndin verði skipuð þremur einstaklingum eins og rannsóknarnefnd þjóðkirkjunnar.

Nefndin verður að öllum líkindum skipuð fólki með sérþekkingu á sviði lögfræði og heilbrigðismála. Þar sem ásakanirnar innan kaþólsku kirkjunnar beinast einnig að starfsfólki innan grunnskóla telur Róbert líklegt að einstaklingur með sérþekkingu á þeim málum verði kallaður til.

Pétur Bürcher
„Punkturinn verður að líkindum sá sami og var til staðar í hinni nefndinni, þó að ekki sé sjálfgefið að málin séu þau sömu," segir Róbert. Hann segir að endanleg skipun nefndarinnar muni liggja fyrir í fyrsta lagi um miðjan ágúst og stefnt sé að því að hún geti hafið störf fyrir 1. september. Nefndin skilar biskupi skýrslu um störf sín en einungis verða helstu niðurstöður og tillögur nefndarinnar birtar opinberlega.

Nefndin mun rannsaka þær ásakanir sem komið hafa fram um kynferðislegt ofbeldi af hálfu þjóna kirkjunnar og starfsmanna stofnana sem henni tengjast. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá biskupi, þar sem hann biður einnig þá einstaklinga afsökunar sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu starfsmanna kirkjunnar.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×