Vandinn í raun Ólafur Þ. Stephensen skrifar 29. júní 2011 06:00 Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður Heimssýnar, spurði í grein hér í blaðinu í gær: „Hver er í raun vandi Grikkja?" Greininni lauk hann reyndar án þess að svara spurningunni, en helzt var á honum að skilja að vandinn væri í því fólginn að hið vonda Evrópusamband skipaði nú Grikkjum að skera niður ríkisútgjöld og einkavæða ríkisfyrirtæki. Svarið við spurningunni um vanda Grikkja er að hann er heimatilbúinn. Ríkissjóður Grikklands var settur á hliðina með útgjöldum sem tekjurnar stóðu ekki undir og óhóflegum lántökum. Innganga Grikklands í Efnahags- og myntbandalag Evrópu (EMU) og upptaka evrunnar átti þar enga sök, nema kannski þá að fjármagn varð ódýrara og stjórnmálamennirnir freistuðust þá til að taka enn meira af lánum. Mótmæli almennings í Grikklandi eru skiljanleg að því leyti að fólk er orðið vant því að stjórnmálamenn kaupi sér vinsældir með ríkisútgjöldum án þess að athuga hvort eitthvað sé til inni á tékkheftinu. Það breytir ekki því að Grikkir eiga engan annan kost en að stemma af útgjöld og tekjur. Hið landlæga gríska agaleysi við stjórn efnahags- og ríkisfjármála var frá upphafi í andstöðu við reglur Efnahags- og myntbandalagsins, sem setja skorður við hallarekstri ríkissjóðs og lántökum. Grikkir vissu nákvæmlega að hverju þeir gengu. Þeir svindluðu hins vegar á hagtölunum þegar þeir fengu inngöngu í EMU og tæki bandalagsins til að refsa ríkjum sem fara ekki eftir reglunum reyndust ekki duga. Nú býsnast menn hér uppi á Íslandi yfir því að ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn krefjist niðurskurðar og einkavæðingar í Grikklandi til að rétta stöðu ríkissjóðsins af og koma í veg fyrir greiðsluþrot. Þá gleymist gjarnan að geta þess að þessum skilyrðum, sem eiga að vinda ofan af heimatilbúnum vanda Grikkja, fylgja loforð um stórfellda fjárhagsaðstoð. Þátttaka í myntbandalagi krefst aga í hagstjórn og ekki sízt að aðhalds sé gætt í ríkisfjármálum til að geta nýtt þau til sveiflujöfnunar ef áföll ríða yfir. Í tilviki Grikklands var það svigrúm ekkert. Þeir sem í Evrópuumræðunni á Íslandi vara við „miðstýringartilburðum Brussel" í efnahagsmálum, þ.e. að Evrópusambandið reyni að tryggja að evruríkin tileinki sér í reynd þann aga við hagstjórnina sem þau undirgengust í upphafi, eru í rauninni að lýsa því yfir að þeir hafi ekki áhuga á slíkum aga við hagstjórnina á Íslandi heldur. Ásmundur Einar Daðason er sjálfum sér samkvæmur í því – hann greiddi til dæmis atkvæði gegn fjárlögunum af því að honum fannst allt of langt gengið í að láta útgjöldin stemma við tekjurnar. Hitt er svo annað mál að Ásmundur Einar og aðrir þeir sem þannig kenna slökkviliðinu um eldinn í Grikklandi eru gjarnan talsmenn þess að Ísland noti krónuna áfram. Þeir gleyma því flestir að ætli lítið ríki með eigin gjaldmiðil að tryggja atvinnulífinu sambærileg samkeppnisskilyrði og evran tryggir fyrirtækjum í ESB-ríkjunum krefst það jafnvel enn harðari aga við hagstjórnina. Sú gleymska er raunverulegt vandamál. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óáreiðanlegar mælingar og misvísandi fréttir Sigurjón Arnórsson Skoðun Líknarslæving við lífslok er umdeild meðferð Ingrid Kuhlman Skoðun Henta vísindin bara þegar þau styðja skoðanir okkar? Haukur Logi Jóhannsson Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Tvær þjóðir í sama landi Einar Helgason Skoðun Unga fólkið okkar og samfélagsmiðlar Fjóla Einarsdóttir Skoðun Hvernig tölum við um mat í kringum börnin okkar? Berglind Lilja Guðlaugsdóttir Skoðun Hlutverk markmiða er að umbreyta okkur Árni Sigurðsson Skoðun
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður Heimssýnar, spurði í grein hér í blaðinu í gær: „Hver er í raun vandi Grikkja?" Greininni lauk hann reyndar án þess að svara spurningunni, en helzt var á honum að skilja að vandinn væri í því fólginn að hið vonda Evrópusamband skipaði nú Grikkjum að skera niður ríkisútgjöld og einkavæða ríkisfyrirtæki. Svarið við spurningunni um vanda Grikkja er að hann er heimatilbúinn. Ríkissjóður Grikklands var settur á hliðina með útgjöldum sem tekjurnar stóðu ekki undir og óhóflegum lántökum. Innganga Grikklands í Efnahags- og myntbandalag Evrópu (EMU) og upptaka evrunnar átti þar enga sök, nema kannski þá að fjármagn varð ódýrara og stjórnmálamennirnir freistuðust þá til að taka enn meira af lánum. Mótmæli almennings í Grikklandi eru skiljanleg að því leyti að fólk er orðið vant því að stjórnmálamenn kaupi sér vinsældir með ríkisútgjöldum án þess að athuga hvort eitthvað sé til inni á tékkheftinu. Það breytir ekki því að Grikkir eiga engan annan kost en að stemma af útgjöld og tekjur. Hið landlæga gríska agaleysi við stjórn efnahags- og ríkisfjármála var frá upphafi í andstöðu við reglur Efnahags- og myntbandalagsins, sem setja skorður við hallarekstri ríkissjóðs og lántökum. Grikkir vissu nákvæmlega að hverju þeir gengu. Þeir svindluðu hins vegar á hagtölunum þegar þeir fengu inngöngu í EMU og tæki bandalagsins til að refsa ríkjum sem fara ekki eftir reglunum reyndust ekki duga. Nú býsnast menn hér uppi á Íslandi yfir því að ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn krefjist niðurskurðar og einkavæðingar í Grikklandi til að rétta stöðu ríkissjóðsins af og koma í veg fyrir greiðsluþrot. Þá gleymist gjarnan að geta þess að þessum skilyrðum, sem eiga að vinda ofan af heimatilbúnum vanda Grikkja, fylgja loforð um stórfellda fjárhagsaðstoð. Þátttaka í myntbandalagi krefst aga í hagstjórn og ekki sízt að aðhalds sé gætt í ríkisfjármálum til að geta nýtt þau til sveiflujöfnunar ef áföll ríða yfir. Í tilviki Grikklands var það svigrúm ekkert. Þeir sem í Evrópuumræðunni á Íslandi vara við „miðstýringartilburðum Brussel" í efnahagsmálum, þ.e. að Evrópusambandið reyni að tryggja að evruríkin tileinki sér í reynd þann aga við hagstjórnina sem þau undirgengust í upphafi, eru í rauninni að lýsa því yfir að þeir hafi ekki áhuga á slíkum aga við hagstjórnina á Íslandi heldur. Ásmundur Einar Daðason er sjálfum sér samkvæmur í því – hann greiddi til dæmis atkvæði gegn fjárlögunum af því að honum fannst allt of langt gengið í að láta útgjöldin stemma við tekjurnar. Hitt er svo annað mál að Ásmundur Einar og aðrir þeir sem þannig kenna slökkviliðinu um eldinn í Grikklandi eru gjarnan talsmenn þess að Ísland noti krónuna áfram. Þeir gleyma því flestir að ætli lítið ríki með eigin gjaldmiðil að tryggja atvinnulífinu sambærileg samkeppnisskilyrði og evran tryggir fyrirtækjum í ESB-ríkjunum krefst það jafnvel enn harðari aga við hagstjórnina. Sú gleymska er raunverulegt vandamál.