Álfasumarið mikla Gerður Kristný skrifar 4. júlí 2011 08:00 Þegar ég var blaðamaður á Tímanum var ég eitt sinn send í Hafnarfjörðinn þar sem því var fagnað að komið væri út kort yfir álfana í bænum. Hver einasti fjölmiðill sunnan heiða virtist hafa sent fulltrúa sinn og því var þarna samankomin nokkur hersing. Við vorum leidd inn í rútu og svo var farið í ökuferð um Hafnarfjörð. Fremst stóð sjáandinn, sem fenginn hafði verið til að útbúa kortið, með hljóðnema í hönd og sagði setningar á borð við: „Hér til hægri er álfafjölskylda sem veifar okkur" og „Lítið síðan til vinstri. Í þessu hrauni býr gamall álfur einn síns liðs". Öll gerðum við það sem fyrir okkur var lagt og það verður að játast að enginn bjó yfir sömu dirfskunni og barnið sem benti keisaranum á að hann væri allsber. Og hvað vissum við líka svo sem? Kannski er bara allt morandi í álfum hér. Af fréttum síðustu viku er það einmitt það sem mig grunar. Álfglögg kona fyrir vestan, Kristín Steinþórsdóttir að nafni, kom á sáttafundi manna og álfa eftir að hafa „skynjað [...] mikla reiði og sorg hjá álfum vegna framkvæmda við Bolungarvíkurgöng og snjóflóðavarnargarðsins í Bolungarvík" segir frétt inni á DV-vefnum. Bæn og tónlist voru síðan notuð til að ná sáttum milli manna og álfa. Dapra álfameyjan í Hringadróttinssögu kemur óneitanlega upp í hugann. Hryggð hennar snerist samt hvorki um göng né snjóflóðavarnargarð, heldur ást hennar til manns og hvort hann væri þess virði að gefa upp eilífðina sjálfa. Litlu síðar birti Morgunblaðið frétt af Ragnhildi Jónsdóttur sem „hefur haft góð kynni" af álfum og huldufólki og því var fátt því til fyrirstöðu að hún opnaði Álfagarð í Hellisgerði í Hafnarfirði. Þar verða álfatebollar og álfaskartgripir til sýnis og svo verður hægt að súpa á lífrænu huldufólkskaffi og álfatei. „Maður þarf ekki að hafa fulla trú á álfum til að hafa gaman af sögunum. Flestir hafa enn innra barnið í sér sem hefur ennþá gaman af ævintýrum. Það er ekkert skilyrði að trúa á þá eins og ég geri," segir Ragnhildur og hefur greinilega áttað sig á því að við erum ekki öll jafnheppin og hún að geta séð álfa. Það helsta sem ég veit um álfa er að álfkonur hafa svo þrönga grind að þær þurfa stundum að leita aðstoðar manna í barnsnauð. Það er gott að vita að enn finnast konur hér á landi sem geta brugðist við slíkum neyðaratvikum. Næst þegar ég ek um Hafnarfjörðinn ætla ég að veifa á báða bóga. Það er aldrei að vita nema einhver veifi á móti. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Gerður Kristný Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Þegar ég var blaðamaður á Tímanum var ég eitt sinn send í Hafnarfjörðinn þar sem því var fagnað að komið væri út kort yfir álfana í bænum. Hver einasti fjölmiðill sunnan heiða virtist hafa sent fulltrúa sinn og því var þarna samankomin nokkur hersing. Við vorum leidd inn í rútu og svo var farið í ökuferð um Hafnarfjörð. Fremst stóð sjáandinn, sem fenginn hafði verið til að útbúa kortið, með hljóðnema í hönd og sagði setningar á borð við: „Hér til hægri er álfafjölskylda sem veifar okkur" og „Lítið síðan til vinstri. Í þessu hrauni býr gamall álfur einn síns liðs". Öll gerðum við það sem fyrir okkur var lagt og það verður að játast að enginn bjó yfir sömu dirfskunni og barnið sem benti keisaranum á að hann væri allsber. Og hvað vissum við líka svo sem? Kannski er bara allt morandi í álfum hér. Af fréttum síðustu viku er það einmitt það sem mig grunar. Álfglögg kona fyrir vestan, Kristín Steinþórsdóttir að nafni, kom á sáttafundi manna og álfa eftir að hafa „skynjað [...] mikla reiði og sorg hjá álfum vegna framkvæmda við Bolungarvíkurgöng og snjóflóðavarnargarðsins í Bolungarvík" segir frétt inni á DV-vefnum. Bæn og tónlist voru síðan notuð til að ná sáttum milli manna og álfa. Dapra álfameyjan í Hringadróttinssögu kemur óneitanlega upp í hugann. Hryggð hennar snerist samt hvorki um göng né snjóflóðavarnargarð, heldur ást hennar til manns og hvort hann væri þess virði að gefa upp eilífðina sjálfa. Litlu síðar birti Morgunblaðið frétt af Ragnhildi Jónsdóttur sem „hefur haft góð kynni" af álfum og huldufólki og því var fátt því til fyrirstöðu að hún opnaði Álfagarð í Hellisgerði í Hafnarfirði. Þar verða álfatebollar og álfaskartgripir til sýnis og svo verður hægt að súpa á lífrænu huldufólkskaffi og álfatei. „Maður þarf ekki að hafa fulla trú á álfum til að hafa gaman af sögunum. Flestir hafa enn innra barnið í sér sem hefur ennþá gaman af ævintýrum. Það er ekkert skilyrði að trúa á þá eins og ég geri," segir Ragnhildur og hefur greinilega áttað sig á því að við erum ekki öll jafnheppin og hún að geta séð álfa. Það helsta sem ég veit um álfa er að álfkonur hafa svo þrönga grind að þær þurfa stundum að leita aðstoðar manna í barnsnauð. Það er gott að vita að enn finnast konur hér á landi sem geta brugðist við slíkum neyðaratvikum. Næst þegar ég ek um Hafnarfjörðinn ætla ég að veifa á báða bóga. Það er aldrei að vita nema einhver veifi á móti.