Bakþankar

Góð einkunn ekki málið

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Bresku kaupkonunni Jenny Paton varð um þegar hún veitti eftirtekt manni sem gægðist inn um stofuglugga heimilis hennar í Dorset þar sem hún sat og púslaði með dætrum sínum. Hana fór að gruna að ekki væri allt með felldu nokkrum dögum síðar þegar ókunnugur bíll veitti henni eftirför er hún ók dætrunum í skólann. Það sem Jenny vissi ekki var að yfirvöld njósnuðu um hana í skjóli hryðjuverkalaga. Hver meintur glæpur Jennyar var hefði hún aldrei getað gert sér í hugarlund.

En að Íslandsströndum: Nýverið var nemendum 10. bekkjar tilkynnt hvar þeir hefðu hlotið framhaldsskólavist. Gremju hefur gætt meðal nemenda, foreldra og skólastjórnenda í kjölfar þess að framhaldsskólum var meinað að hleypa inn nemendum einungis eftir getu heldur skyldu þeir metnir eftir búsetu; 40% plássa skóla eru frátekin fyrir umsækjendur úr hverfinu. Góðar einkunnir eru því ekki lengur málið. Skólastjóri Verzlunarskóla Íslands, Ingi Ólafsson, hefur greint frá því að hann hafi þurft að taka inn í skólann nemendur úr hverfinu með 6,9 í meðaleinkunn meðan nemendum með allt að 8,75 var vísað frá.

Hvers vegna það er farið að þykja feimnismál að fólk komist áfram á verðleikum er óskiljanlegt. Er eðlilegt að hæfileikaríkur nemandi úr Breiðholtinu komist ekki inn í MR en nemandi með lágar einkunnir úr 101 fljúgi sjálfkrafa inn? Vafalítið hefur ásetningur yfirvalda sem komu þessari stefnu á verið góður. Ófyrirséðar afleiðingar hennar geta þó orðið geigvænlegar.

Glæpurinn sem Jenny Paton var gefinn að sök var að ljúga til um heimilisfang sitt. En hvers vegna skyldi hún gera það? Í Bretlandi er grunn- og framhaldsskólastigið bundið hverfaskipulagi. Afleiðingarnar hafa reynst þær að slegist er um húsnæði kringum góða skóla sem er allt að 11% dýrara en meðalhúsnæðið. Það eru því helst efnaðir foreldrar sem hafa tök á að tryggja börnum sínum gott nám. Tekið hefur að bera á því að foreldrar sem ekki hafa efni á slíkum munaði ljúgi til um heimilisfang í skólaumsóknum barna sinna. Til að nappa „svikarana" hafa hin ýmsu bæjaryfirvöld nýtt sér lagaheimildir um njósnir sem upphaflega áttu að góma hryðjuverkamenn og dópsmyglara.

Hætta er á sambærilegri þróun hér á landi; húsnæðisverð hækkar kringum góða skóla og góð menntun verður munaður ríkra. Í raun væri það verðugt athugunarefni að skoða hvort íbúðarhúsnæði kringum góða skóla sé ekki nú þegar hærra en annars staðar. Stjórnvöldum kann að þykja hæfni vondur mælikvarði við inngöngu í framhaldsskóla. Efnahagslegir yfirburðir eru þó enn verri.






×