Innlent

Fjöldi vanskilamála fyrir héraðsdómi

Fæst mál Félagsbústaða á hendur leigjendum sínum leiða til útburðar. Mynd úr safni.
Fæst mál Félagsbústaða á hendur leigjendum sínum leiða til útburðar. Mynd úr safni.
„Þeim leigjendum Félagsbústaða sem eiga í fjárhagsvanda hefur fjölgað,“ segir Sigurður Kr. Friðriksson framkvæmdastjóri Félagsbústaða hf. Á síðustu mánuðum hefur verið þingfestur í héraðsdómi allnokkur fjöldi mála Félagsbústaða á hendur leigjendum sínum. Sigurður segir að vanskilin hafi verið komin niður í 1,5 prósent af veltu Félagsbústaða árið 2007. Á síðasta ári hafi þau verið komin upp í 3,5 prósent. Þetta segi sína sögu.

„Fæst af þessum málum, sem þingfest eru í héraðsdómi ganga til útburðar, enda hefur fjöldi útburða staðið í stað,“ útskýrir Sigurður. Hann segir málin geta risið vegna leiguskulda eða vegna þess að viðkomandi sé búinn að fyrirgera rétti sínum til að vera í íbúðinni vegna ónæðis eða að hann sé ekki húsum hæfur. „Síðarnefndu málin eru í miklum minnihluta,“ bætir Sigurður við.

Hvað varðar skuldamálin segir hann að þau verði að leggja fyrir héraðsdóm og fá úrskurð til að geta farið í útburð, sem sé lokaúrræðið. Í millitíðinni sé reynt að fá fjárhagsaðstoð fyrir skuldarana með aðstoð velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sem gangi vel, eigi þeir á annað borð rétt á aðstoð.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×